Konunni bannað að keyra Jón á sóttvarnarhótel þó þau hafi verið saman á Spáni

Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður hefur haft sig nokkuð í frammi í umræðunni um kórónuveiruna undanfarna mánuði. Hann var til dæmis lögmaður konu sem var skikkuð til að dvelja í farsóttahúsi um páskana og hafði lögmaðurinn betur gegn yfirvöldum.

Í færslu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi birti Jón frásögn af ímynduðum hjónum, Jóni og Gunnu, sem fóru saman til Alicante á Spáni. Virðist markmiðið að vekja athygli á ákveðnum tvískinnungi þegar reglur um sóttvarnir eru annars vegar.

„Þau dvöldust þar í hálfan mánuð og spiluð golf saman fóru í ferðir saman, sváfu í sama herbergi og gerðu allt saman sem góð og gegn ástfangin hjón gera. Þau flugu síðan til baka til Keflavíkur og sátu saman í vélinni á leiðinni heim,“ segir Jón sem heldur áfram:

„Þegar þau komu til Keflavíkur var Jóni skipað að fara á sóttvarnarhótel en Gunna var frjáls ferða sinna af því að hún var bólusett. Hún bauðst til að keyra Jón á sóttarnarhótel en spurði hvort hann mætti ekki bara vera heima. Svarið var nei. Sóttvarnarlæknir mælir svo fyrir að Jón skuli fara í sóttvarnarhótel og Gunna heim til sín og hún megi alls ekki keyra hann. Það er alvarlegt brot. En ef Jóni yrði heimilað heimasóttkví þá yrði Gunna að flytja af heimilinu.“

Jón spyr svo í lok pistilsins:

„Getur einhver upplýst mig um það hvar hin vitræna glóra er í svona ráðstöfunum? Hvenær skapaðist hættan fyrir Jón og Gunnu að umgangast? Þegar þau komu út úr tollinum í Keflavík? Eða hvað?“

Margir taka undir með Jóni á meðan aðrir benda á að um séu að ræða almennar aðgerðir sem gefist hafa vel. Ekki sé hægt að klæðskerasauma reglurnar að hverjum og einum.