Hringbraut skrifar

Kona útvarpsstjóri? Nei, Karl Garðarsson fær embættið

8. desember 2019
17:54
Fréttir & pistlar

Mikið er slúðrað þessa dagana um að kona verði skipuð í embætti útvarpsstjóra. Nokkrar hafa verið nefndar og tengdar við mismunandi stjórnmálaflokka.

Í þeim samkvæmisleikjum gleymist að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ræður. Hún mun alltaf skipa framsóknarmann í þetta mikilvæga valdaembætti. Það mun engu breyta þó aðrir flokkar tefli fram fulltrúum sínum, þó hæfir kunni að vera. Dæmi um það eru samfylkingarkonurnar Þóra Arnórsdóttir, Svanhildur Konráðsdóttir og dr. Ólína Þorvarðardóttir.

Vinstri græn vilja sjá Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrrverandi ráðherra, í embætti útvarpsstjóra og Sjálfstæðisflokkurinn er í vandræðum með nokkrar konur sem þægilegt væri að planta hjá RÚV. Þar ber fyrst að nefna Sigríði Andersen sem skelfilegt er fyrir flokkinn að hafa á þingi eftir þá dóma sem fallið hafa á hana. Einhverjir nefna einnig Svanhildi Hólm Valsdóttur enda er hún fyrrum sjónvarpsþula. En það er að sjálfsögðu sagt í gríni.

Þessar vangaveltur eru allar óþarfar því Karl Garðarsson verður næsti útvarpsstjóri.

Hann er fyrrum þingmaður Framsóknar og með mikla reynslu úr fjölmiðlum. Hann hefur verið fréttastjóri, fréttamaður, ritstjóri og framkvæmdastjóri útgáfufyrirtækis.

Karl Garðarsson er fæddur í starfið!