Kol­finna fékk hvergi vinnu: Upp­lifði út­skúfun vegna pabba síns og flutti úr landi

„Ég vil full­yrða að allir Ís­lendingar þekki dæmi um at­vinnu­bann og mis­beitingu valds, ef ekki per­sónu­lega þá frá nánasta um­hverfi,“ segir Kol­finna Bald­vins­dóttir. Kol­finna segir að fátt komi á ó­vart í nýrri bók Ó­línu Þor­varðar­dóttur, fyrr­verandi þing­konu.

Bók Ó­línu, Spegill fyrir Skugga­baldur – at­vinnu­bann og mis­beiting valds, hefur vakið tals­verða at­hygli og lýsir Kol­finna sjálf eigin reynslu á opin­skáan hátt í færslu á Face­book-síðu sinni. Kol­finna er dóttir Jóns Bald­vins Hannibals­sonar og Bryn­dísar Shcram og segist hún hafa fundið fyrir því á eigin skinni að hafa verið dóttir stjórn­mála­manns sem „flokknum“ stóð stuggur af.

„Bara að finna sumar­vinnu sem ung­lingur, velti á vel­vild at­vinnu­rek­enda gagn­vart Al­þýðu­flokknum – eða ó­vild. At­vinnu­tæki­færi móður minnar veltu líka á því – eins og hún lýsir í ný­út­kominni bók sinni “Brosað gegnum tárin”,“ segir Kol­finna og heldur á­fram:

„Rétt eins og hún, var ég sjálf ráðin - og rekin - á þessum sömu for­sendum: Ráðin hjá Stöð 2 til að sýna að sú stöð væri ekki of vil­höll “flokknum” en rekin líka til þess að þóknast “flokknum” þegar þar að kom. Ráðin hjá Rúv til að sýna að sú stöð gætti jafn­ræðis flokks­lega, en rekin á sömu for­sendum – eins og kom skýr­lega fram í greinum Hannesar Hólm­steins á þessum tíma: hann kvartaði undan því að “of margir kratar” væru á skjánum í “sjón­varpi allra lands­manna”.“

Kol­finna segist engan veginn hafa gert sér grein fyrir því að líf hennar og at­vinnu­tæki­færi hafi verið undir­orpin þessum for­sendum. Hún hafi verið svo sak­laus að hún hélt að hún væri ein­fald­lega hæf til starfsins, ung kona sem vildi bara hafa í sig og á. „Það var löngu síðar sem mér var ein­fald­lega sagt hvaða lög­mál hefðu verið á ferðinni.“

Kol­finna segist hafa valið þann aug­ljósa kost að flytja af landi brott. Veltir hún því fyrir sér hversu mikið ís­lenskt sam­fé­lag hefur liðið fyrir brott­flutning allra þeirra sem hafa valið þennan sama kost - það var í raun efni í sér­staka rann­sókn. Hún segir svo frá því hvernig hún kom alls staðar að lokuðum dyrum þegar hún sótti um á­huga­verð störf á Ís­landi.

„Hversu oft hef ég ekki sent mína feril­skrá til Ís­lands, þegar ég sá aug­lýst störf sem pössuðu við mína starfs­reynslu (ævin­lega án svara)? Einu sinni gekk ein ráðningar­stofan svo langt að mælast til þess að ég strokaði út þriggja ára starfs­reynslu mína hjá Evrópu­sam­bandinu. Yfir­lýstir Evrópu­sam­bands­sinnar eins og ég (sem hafði komið fram í mínum blaða­skrifum) kæmu ekki til greina. Þegar ég spurði hvað ég ætti þá að hafa verið að gera þessi þrjú ár, var svarið: Varstu ekki að eiga börn?“

Kol­finna segir að í bók sinni nefni Ó­lína nokkrar til­lögur um hvernig hægt sé að sporna við þessu. Kol­finna hefur skoðanir á þeim leiðum og nefnir sér­stak­lega eina.

„Ég hefði líka viljað sjá hana draga kjós­endur til á­byrgðar. Það eru þeir sem hafa kosið þennan flokk yfir sig og gert honum kleift að út­skúfa og þagga niður í þeim sem hann hefur van­þóknun á. Hvað hefur það kostað ís­lenskt sam­fé­lag á lýð­veldis­tímanum? Það er sér­stakt rann­sóknar­efni.“

Það er fátt sem kemur á óvart í nýrri bók Ólínar "Spegill fyrir Skuggabaldur – atvinnubann og misbeiting valds”. Ég...

Posted by Kolfinna Baldvinsdóttir on Þriðjudagur, 13. október 2020