Kolbeinn vill halda upp á árlegan ömmudag: „Ömmur eiga það skilið“

„Ég held að við setjum ekki ömmur á nógu háan stall í samfélaginu. Við ættum að halda hátíðlegan ömmudag á hverju ári. Ömmur eiga það skilið,“ segir Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis í grein á Vísi.

Í dag hefði amma hans orðið 100 ára gömul. „Besta amma í heimi. Kjaftæði segir þú kannski. Er amma þín sú besta? Það er líklega rétt hjá þér. Eins og mér. Ömmur eru einfaldlega langbestar,“ segir Kolbeinn. Hún lést árið 1996 og segir hann að á því augnabliki hafi líf hans gjörbreyst. Mamma hans hefur verið amma í áratug og efast hann ekki um að hugur barnabarna hennar sé eins og hugur hans til ömmu sinnar.

„Þær ömmur sem ég hef kynnst hafa aldrei sett sjálfar sig í fyrsta sætið. Þær hafa alltaf sett fjölskylduna í forgang. „Afsakið“ minnir mig að amma hafi sagt í hvert skipti þegar hún bar dýrindismat á borð fyrir gesti sína. Eins og eitthvað hafi verið til að afsaka. Það þurfti að biðja hana um að setjast og slaka á, svo mikilvægt þótti henni að allt væri til alls fyrir gesti sína. Fólkið hennar.“

Leggur hann til að dagurinn í dag, 26.júní verði ömmudagur. „Í mínum huga er 26. júní augljósa dagsetningin en ég efast ekki um að við getum komist að samkomulagi.“