Kjartan varpar ljósi á hrikalega stöðu Strætó: Gátu ekki borgað reikninga fyrir helgi vegna fjárskorts

Staða Strætó bs. er grafalvarleg og er félagið á mörkum þess að vera rekstrarhæft. Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Kjartan vísar í ársfund þriggja byggðasamlaga síðastliðinn föstudag: Sorpu, Strætó og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Um er að ræða hálfgerð dótturfélag Reykjavíkurborgar sem fer með rúmlega 60% eignarhlut í þeim öllum.

„Staða Strætós bs. er grafalvarleg og kom fram í kynningu stjórnenda á ársfundinum að félagið væri á mörkum þess að vera rekstrarhæft. Tap félagsins nam um 1.100 milljónum króna fyrstu níu mánuði ársins en í samþykktri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 93 milljóna tapi. Eigið fé Strætós er nú neikvætt um 225 milljónir.“

Kjartan segir að greiðsluhæfi félagsins sé óviðunandi og fram hafi komið að fresta hefði þurft greiðslu reikninga fyrir helgi vegna fjárskorts.

„Alvarleg mistök voru gerð með kaupum og innleiðingu á nýju greiðslukerfi Strætós og hafa margvísleg vandamál komið upp við rekstur þess. Það er slæmt fyrir Strætó, sem má illa við því að missa tekjur, en ekki síður hvimleitt fyrir viðskiptavini. Í heilt ár hafa farþegar fengið þau svör að um byrjunarörðugleika væri að ræða, sem brátt yrðu úr sögunni. Á fundinum kom hins vegar fram að lykilbúnaður greiðslukerfisins, þ.e. skannarnir í vögnunum, væru ónothæfir til síns brúks og væri eina ráðið að skipta þeim öllum út og kaupa nýja.“

Grein Kjartans má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.