Kjartan Lárus er látinn

7. apríl 2020
08:09
Fréttir & pistlar

Kjartan Lárus Pálsson, fararstjóri, blaðamaður og kylfingur, er látinn áttræður að aldri. Greint er frá andláti Kjartans í Morgunblaðinu í dag en hann lést á Landspítalanum á föstudag í síðustu viku.

Kjartan hóf störf í blaðamennsku á sjöunda áratug liðinnar aldar og skrifaði einkum íþróttafréttir. Hann hóf störf á Vísi en skrifaði einnig fyrir Tímann og DV, bæði íþróttafréttir og almennar fréttir. Hann sinnti blaðamennskunni í 25 ár uns hann sneri sér alfarið að fararstjórn.

Hann starfaði fyrir Samvinnuferðir-Landsýn og Úrval Útsýn og starfaði meðal annars á Spáni og í Taílandi. Í Morgunblaðinu er golfferill Kjartans rifjaður upp en á árunum 1879 til 1986 var hann liðsstjóri karlalandsliðsins í golfi. Til marks um það hversu öflugur kylfingur Kjartan var þátti hann um tíma Íslandsmetið yfir fjölda af holum í höggi. Í frétt á vef Kylfings, frá árinu 2005, kom fram að Kjartan hefði á ferli sínum farið sex sinnum holu í höggi.

Kjartan lætur eftir sig eiginkonu, tvö börn, fimm barnabörn og sjö barnabarnabörn.