Keyrði yfir á rauðu ljósi og í símanum - munaði litlu að tveggja mánaða dóttir herdísar hefði orðið fyrir högginu

„Hann keyrði hratt yfir á mjög rauðu ljósi og ef ég hefði ekki séð hann þá hefði Andri haldið áfram að keyra og maðurinn keyrt á okkur.“

Þetta segir Herdís Þóra Hrafnsdóttir í færslu sinni á Facebook sem DV greindi frá.

Herdís og maðurinn hennar Andri voru að keyra með tveggja mánaða gamla dóttur sína, Fanneyju Ósk í bílnum. Þau voru að fara af stað á gatnamótum í lítilli götu í Hafnarfirði þegar Herdís verður vör við bíl koma á fullri ferð.

„Hann fór yfir á vel rauðu ljósi, það var ekki gult. Við vorum að fara af stað seint á okkar ljósi sem var orðið grænt. Það voru engir aðrir bílar. Hann hefði ekki bara keyrt á bílinn heldur inn í hliðina þar sem Fanney Ósk svaf. Hann á jeppa og við á Yaris. Þegar hann sá okkur loksins hélt hann bara áfram að keyra. Þá tók ég eftir að hann hélt á síma, hann var ekki að tala í hann heldur var í honum,“ sagði Herdís.

Það vildi svo til að eftir atvikið lagði ökumaður jeppans á sama bílastæði og Herdís og Andri. Hún gat því rætt við hann um atvikið.

„Ég var svo reið að ég sagði honum að horfa á tveggja mánaða gamla dóttur mína sem hann hefði keyrt á og hugsa sig tvisvar um næst þegar hann tekur upp símann meðan hann er að keyra! Mikið rosalega var ég reið.“

Veltir Herdís því fyrir sér hvernig farið hefði fyrir fjölskyldunni ef hún hefði ekki séð bílinn. Biðlar hún til almennings að nota ekki farsíma við akstur.