Kettir geta borið harð­snúna bakteríu – Átt­ræð kona lést

Átt­ræð kona í Mel­bour­ne í Ástralíu er látin eftir al­var­leg veikindi sem rakin eru til bakteríu­sýkingar. Konan hafði verið í dái í níu daga áður en hún lést.

Í fréttum ástralskra fjöl­miðla kemur fram að konan hafi fengið heiftar­lega sýkingu eftir að kötturinn hennar sleikti opið sár á henni. Grunur leikur á að baktería í munn­vatni kattarins hafi valdið sýkingunni, en kettir geta borið bakteríua pasteurella sem getur valdið heila­himnu­bólgu. Þá eru dæmi þess að sýkingin geti komist í hjartað.

Í frétt Herald Sun kemur fram að læknar í Mel­bour­ne fái inn á borð til sín eitt til­felli í viku að meðal­tali vegna sýkingar af þessu tagi. Hvetja þeir þá sem eru við­kvæmir fyrir, til dæmis með við­kvæmt ó­næmis­kerfi, til að halda sig frá köttum.

Lindsay Gray­son, sér­fræðingur í smit­sjúk­dómum við Austin Health-sjúkra­húsið í Mel­bour­ne, segir að kattar­eig­endur ættu ekki undir nokkrum kring­um­stæðum að leyfa dýrunum að sleikja opin sár. Raunar ættu þeir sem eldri eru eða með við­kvæmt ó­næmis­kerfi helst að sleppa því að vera ná­lægt þeim.