Kenndi sjálfri sér um að sonurinn endaði í fangelsi

Ás­laug Kristjáns­dóttir lýsir þeirri upplifun að eiga son sem var í fangelsi í hlað­varpinu Frelsið er yndis­legt þar sem Guð­mundur Ingi Þór­odds­son, for­maður Af­stöðu, ræðir allar hliðar fangelsis­mála.

„Það kemur rosa­leg sjálfs­á­sökun hjá for­eldrum barna sem feta þessa braut,“ segir Ás­laug og ekki er laust við að hún komist við. „Það finnst öllum það vera þeim að kenna.“

Sár­lega vanti aukin stuðning fyrir að­stand­endur fanga sem ganga víðast hvar að lokuðum dyrum. Áslaug bendir á að fangelsis­dómur hafi ekki að­eins á­hrif á mann­eskjuna sem hlaut dóminn heldur alla fjöl­skylduna og vini þess ein­stak­lings.

Tekur mikið á aðstandendur

„Fyrst þegar hann var kominn í fangelsi þurfti ég að hafa mig alla við til að meika að fara í vinnu og meika að fara út í búð,“ segir Ás­laug. Fordómar samfélagsins hafi þar haft mikið að segja og telur Áslaug fólk ekki veigra sér við að fordæma fanga.

Það hafi hins vegar ekki mikið upp á sig að hella sér yfir manneskjur sem eru læstar bak við lás og slá þar þeir sjái ekki fréttir og athugasemdir á netinu. „Eina fólkið sem sér þetta eru aðstandendurnir,“ bendir Áslaug á.

Sonur Áslaugar var aðeins fjórtán ára gamall þegar hann fór að feta braut neyslunnar og fimmtán ára gamall tók hann þátt í ráni. „Þá fór tauga­kerfið hjá manni alveg að hrynja.“

Heimurinn hrundi síðan alveg að sögn hennar þegar hún fékk símtal frá lögfræðingi um að sonur hennar væri komin í gæsluvarðhald og myndi þurfa að fara í fangelsi.

Gat ekki borgað fyrir námið

Áslaug segir son sinn hafa verið skíthræddan þegar hann var læstur inni á Litla Hrauni. Fjölskyldan fékk því framgengt að hann yrði fluttur á Kvíabryggju sem er opið fangelsi. Þar hó hann nám en átti í erfið­leikum með að standa í straum við kostnað þess.

„Þeir fengu bara 9 þúsund krónur á viku og þurftu að borga fyrir námið með því.“ Huga þurfi að því að ekki hafi allir að­stand­endur efni á að greiða kostnað fanga og því sé oft ó­mögu­legt fyrir þá að klára nám.

Sam­fangi kom honum í skólann

Sonur Ás­laugar hafi þó kynnst góðum mönnum í fangelsinu. „Annar þeirra bauðst til að borga skólann fyrir hann [..] og það var annar sam­fangi til­búin að sitja heilu dagana og reikna með honum. Þess vegna gat hann þetta.“

Ás­laug segir son sinn vera einn af þeim heppnu sem þurfa að sitja inni. „Hann er að klára málarann núna í maí og stefnir beint í meistarann.“ Á­stæða þess sé ekki kerfið heldur heppni.

Við­talið má sjá í heild sinni hér að neðan: