Kennarar sem deila boðskap Jordan Peterson fá á baukinn frá Kennarasambandinu

Jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands er ekki sátt með málflutning kanadíska fræðimannsins Jordan Peterson sem hélt fyrirlestur hér á landi um helgina. Á meðan hann var á landinu tjáði hann sig um trans fólk og þá sérstaklega trans börn, en ummæli hans hafa vakið athygli.

Í tilkynningu, sem stíluð er á Hönnu Björg Vilhjálmsdóttur forkonu nefndarinnar, segir að með ummælum sínum hafi sálfræðingurinn umdeildi ráðist harkalega að mannréttindum trans fólks.

Þá segir að lítill hópur kennara hafi tekið undir þennan „boðskap haturs og fáfræði“ Kennarasambandið segist harma að alið sé á fordómum gagnvart trans fólki enda sé það skylda kennara að tryggja að skólar séu öruggur staður fyrir alla nemendur. 

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Jordan Peterson hélt fyrirlestur í Háskólabíói nýverið þar sem hann réðst harkalega að mannréttindum trans fólks. Í framhaldi af því hefur lítill hópur kennara tekið undir þennan boðskap haturs og fáfræði.

Af því tilefni vill Jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands koma á framfæri athugasemd við ummæli þessa hóps. Jafnréttisnefnd KÍ harmar að alið sé á fordómum um trans börn. Skylda kennara  er að tryggja að skólar séu öruggur staður fyrir öll börn og ungmenni, óháð kynvitund, kynhneigð, kyntjáningu, kyni, húðlit, uppruna, trúarbrögðum, fötlun eða annars sem gæti jaðarsett þau, siðferðislega og lagalega. Einnig er rétt að ítreka að hinsegin kennarar og starfsfólk skóla njóta sömu mannréttinda.

Skólar eiga að slá skjaldborg um jöfnuð, jafnrétti og velferð nemenda sinna. Þeir skulu stefna að réttlátum, sanngjörnum og sjálfbærum heimi. Í skólum eiga allir nemendur að fá jöfn tækifæri til þroska og vaxtar og skjól til að þroska hæfileika sína.“