Keimlík stefna tveggja vinstri flokka

Gaman er að velta fyrir sér og bera saman stefnuskrár og baráttumál stjórnmálaflokka í aðdraganda Alþingiskosninga. Talsverður fjöldi flokka er á vinstri væng stjórnmálanna og nýlega sagði einhver góður maður virkustu samkeppnina á Íslandi einmitt vera á milli vinstri flokka.

Samhljómur er milli Flokks fólksins og Vinstri grænna í ýmsum málaflokkum. Lítið ber á milli í heilbrigðis- og velferðarmálum þótt óhjákvæmilega sé stefna Vinstri grænna orðuð varfærnar en stefna Flokks fólksins, enda ekki við öðru að búast þegar Vinstri grænir hafa stýrt málaflokknum í heilt kjörtímabil en Flokkur fólksins aldrei komið að stjórnun hans. Flokkur fólksins ætlar að útrýma biðlistum á meðan Vinstri grænir hyggjast setja viðmið og reglur um hámarks biðtíma.

Báðir vilja flokkarnir útrýma fátækt og óréttlæti á Íslandi. Flokkur fólksins gengur svo langt að krefjast 350 þúsund króna skattfrjálsrar lágmarksframfærslu. Vinstri grænir vilja laga persónuafslátt að þörfum hinna tekjulægri og tryggja að tekjulægstu hóparnir séu undir skattleysismörkum.

Báðir vilja flokkarnir stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum og aukna gjaldtöku fyrir afnot af sjávarútvegsauðlindinni. Báðir vilja þeir ýta undir strandveiðar og byggðarlög um allt land. Flokkur fólksins segist vilja kvótann „aftur heim“.

Helsti munurinn milli flokkanna birtist í umhverfismálum þar sem Vinstri grænir leggja áherslu á að beita skattkerfinu bæði sem hvata og refsivendi til að stuðla að verndun umhverfisins og orkuskiptum. Flokkur fólksins leggur hins vegar áherslu á að umhverfisvernd og baráttan gegn loftslagsbreytingum bitni ekki á almenningi. Flokkurinn er á móti grænum sköttum sem auki misskiptingu og fátækt.

Kosningaloforð sín ætlar flokkur fólksins að fjármagna með því að afnema undanþágu lífeyrissjóða til að halda eftir staðgreiðslu skatta við innborgun í sjóðina, sem muni skila ríkisstjóði tugum milljarða á ári. Einnig hyggst flokkurinn „færa persónuafsláttinn frá þeim ríku til hinna efnaminni“ og innheimta fullt verð fyrir aðgang að sjávarútvegsauðlindinni, endurvekja bankaskattinn og draga úr „hvers kyns óþarfa útgjöldum ríkissjóðs“.

Vinstri grænir vilja nota auðlegðarskatt, þrepaskiptan fjármagnsskatt og sérstakan hátekjuskatt auk „sanngjarnra“ auðlindagjalda til að til að fjármagna sín kosningaloforð.

Nú er óvíst hvort Flokkur fólksins nær mönnum á þing í komandi kosningum, en ljóst er að hann er að dorga eftir atkvæðum í gruggugu vatni á vinstri væng stjórnmálanna. Þegar umhverfismálum sleppir er lítill munur sjáanlegur á Vinstri grænum og Flokki fólksins, ef undan er skilið að annar flokkurinn situr í ríkisstjórn en hinn ekki. Þetta er nokkurn veginn sama tóbakið þegar upp er staðið.

- Ólafur Arnarson