Katrínu var hafnað í kosningum – en verður áfram – sigurvegarinn fær stóla

Stjórnarmyndun gengur brösuglega þrátt fyrir að einungis sé verið að reyna að klambra saman áframhaldandi stjórnarsetu flokka sem setið hafa saman í ríkisstjórn í fjögur ár og leiðtogar flokkanna segist vera hreint ljómandi ánægðir með samstarfið í ríkisstjórn.

Myndin er samt ekki eins glæsileg og leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna vilja vera láta. Fyrir fjórum árum var þessi ríkisstjórn mynduð vegna þess að enginn annar raunhæfur kostur var í boði. Stjórnarsáttmálinn reyndist haldlaust plagg vegna þess að þegar á reyndi fór hver stjórnarflokkur sínu fram í sínum málaflokkum og ef atbeina Alþingis þurfti með var engin trygging fyrir því að mál ríkisstjórnarinnar fengju stuðning allra stjórnarflokkanna.

Þetta kom berlega í ljós varðandi stjórnarskrármálið, sem var á forræði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þrátt fyrir fögur orð í stjórnarsáttmála náði hún engum breytingum fram á stjórnarskránni. Ástæðan var sú að hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsókn höfðu minnsta áhuga á að gera breytingar á stjórnarskránni og töldu sig óbundna af stjórnarsáttmálanum í þeim efnum. Sama var uppi á teningnum með hálendisþjóðgarðinn.

Síðasta kjörtímabil einkenndist af kyrrstöðu vegna þess að hér sat ríkisstjórn sem í raun gat ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Eina samstaðan var um völd  og stóla. Eina áhersla Vinstri grænna nú er að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra.

Sjálfstæðisflokkurinn situr í þessari vinstri stjórn vegna þess að í henni fær hann að verja sérhagsmuni kvótagreifa, sem virðist vera helsta stefnumál flokksins í seinni tíð, fyrir utan að halda þjóðinni fastri í spennitreyju krónunnar sem stórskaðar samkeppnishæfni atvinnulífsins og lífskjör þjóðarinnar í heild.

Allt bendir samt til þess að samstaða náist milli stjórnarflokkanna þriggja um áframhaldandi setu – áframhaldandi samstöðu um að gera ekki neitt. Ríkisstjórnarflokkarnir þora ekki að breyta neinu – engu öðru en því að væntanlega fær Framsókn fimm ráðherra og Vinstri græn verða að sætta sig við tvo – tapa einum. Sigurvegarinn fær stóla og sá sem tapaði missir stól en heldur þó þeim sem skiptir hann mestu máli. Endurnýjuð vinstri stjórn situr og skellir áfram skollaeyrum við því að raunverulegir hagsmunir Íslands felast ekki í einangrun og misskildu „fullveldi“ í anda Guðbjarts Jónssonar bónda í Sumarhúsum heldur í fullri þátttöku í því mikilvæga samstarfi sem flestar aðrar Evrópuþjóðir, stórar sem smáar, líta á sem hornstein hagsældar og velferðar. En ríkisstjórnarflokkarnir verða sáttir með sitt.

- Ólafur Arnarson