Katrínu skorti kjarkinn: „hrokafyllri en nokkru sinni fyrr“

„Það hefði verið virkilega gaman að fylgjast með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur undanfarin tvö ár ef hún hefði haft þetta pólitíska hugrekki. Hún hefði getað nýtt sína meintu hæfileika sem mannasættir og málamiðlari til að halda ólíkum flokkum hamingjusömum meðan þeir gerðu í sameiningu langþráðar breytingar á samfélaginu án þrúgandi spilltrar nærveru Sjálfstæðisflokksins.“

Þetta segir Illugi Jökulsson í pistli í Stundinni. Þar gagnrýnir Illugi Katrínu harðlega um leið og hann veltir fyrir sér hvernig væri umhorf hér á landi í dag ef Katrín og VG hefðu ekki myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Illugi segir að Katrín hafi verið með pálmann í höndunum eftir góðan kosningasigur VG á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn var í sárum eftir enn eitt hneykslið málið. Hefði Katrín auðveldlega getað sett Bjarna Benediktsson og félaga út á kant í íslenskri pólitík. Illugi segir:

„Hún hafði því miður ekki það hugrekki og í staðinn leikur Sjálfstæðisflokkurinn enn lausum hala, orðinn hrokafyllri en nokkru sinni fyrr, því hann gerir sér nú grein fyrir því að jafnvel hinni meinti „höfuðandstæðingur“ hans, sem VG þóttist vera, mun ekki hrófla við honum og þeirri valdapólitík og hagsmunagæslu sem hann gengur út á.“

Þá segir Illugi að lokum:

„ ... ég [er] smeykur um að litið verði á ríkisstjórnarmyndunina 2017 sem misheppnað tækifæri til að gefa upp á nýtt í íslensku samfélagi. Í staðinn sitjum við uppi með sömu hundana og venjulega en auðstéttin hefur öll tromp á hendi. Þökk sé VG.“