Katrín telur sig geta varið „heilsu og hag“ með stórauknu atvinnuleysi

24. ágúst 2020
16:10
Fréttir & pistlar

Svo virðist sem forsætisráðherra telji þjóðina beinlínis heimska miðað við þær yfirlýsingar sem hún býður upp á í blaðagrein og viðtali í dag.

Ef Katrín Jakobsdóttir heldur að landsmenn geri sér ekki grein fyrir afleiðingum þess að loka landinu fyrir erlendum ferðamönnum, þá er hún annað hvort illa upplýst eða þá telur hún að hægt sé að bjóða fólki upp á hvað sem er. Hún mun komast að því að við erum betur að okkur en það. Því miður munu allt of margir finna fyrir afglöpum ríkisstjórnarinnar á eigin skinni og þá munu yfirlýsingar Katrínar hljóma kjánalega.

Katrín heldur því fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar miði að því að innanlandshagkerfið verði fyrir sem minnstu raski. Þetta stenst enga skoðun. Með því að setja alla sem koma til landsins í fimm daga sóttkví munu erlendir gestir hætta að koma til landsins meðan það ástand varir. Enginn getur gagnrýnt að skimun fari fram á landamærunum og þess vegna endurtekin skimun eins og nú er áskilið. En fimm daga sóttkví veldur hruni í heimsóknum erlandra gesta. Fyrir liggur að á þessum árstíma er meðaldvalartími útlendinga sem koma til Íslands sex dagar. Þar af leiðandi dettur fáum í hug að heimsækja Ísland til þess eins að dvelja í sóttkví mest allan tímann! Með þessum aðgerðum er verið að loka landinu. Hverjar eru afleiðingar þess?

Þessar órökstuddu og vanhugsuðu aðgerðir hitta ekki bara ferðaþjónustu og flugstarfsemi fyrir heldur fjölda atvinnugreina. Matvælaiðnaður verður fyrir miklu höggi. Sama má segja um byggingariðnað og ýmsar greinar verslunar og þjónustu. Hætt er við að fjöldi gististaða, hótela, veitingastaða og kaffihúsa verði gjaldþrota og hætti þar með starfsemi. Þá losnar um mikið húsnæði sem að stórum hluta er í eigu fasteignafélaga sem munu tæplega geta leigt þau út að nýju við óbreyttar aðstæður. Fasteignafélögin geta orðið fyrir miklu tjóni og töpum. Sama má segja um banka og aðrar peningastofnanir sem hljóta að verða fyrir miklum útlánatöpum. Svo virðist sem reiknimeistarar ríkisstjórnarinnar hafi ekki talið umræddan vanda með.

Einhverjir kunna þá að segja: Þessi gagnrýni snýst bara um peninga en ráðstafanirnar snúast um að vernda heilsu og líf fólks. Vitanlega snúast sóttvarnir um það. En gleymist ekki eitthvað þegar heildarmyndin er skoðuð? Jú, það gleymist að taka með í reikninginn að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar munu að óbreyttu auka atvinnuleysi um mörg þúsund manns.

Hvað segir forsætisráðherra við allt fólkið sem ríkisstjórn hennar er að vísa úr störfum víða í atvinnulífinu um allt land? Ætlar hún þá að endurtaka það sem kemur fram í dag: …….við erum að verja „bæði heilsu og hag“. Væri þá ekki rétt að fjalla samtímis um hvaða áhrif atvinnuleysi hefur á „heilsu og hag“ þeirra sem í því lenda. Tiltækar eru tölur um heilsufarslegar afleiðingar atvinnuleysis. Þarf ríkisstjórn Katrínar ekki að líta á þessar staðreyndir samhliða ýmsu sem slegið er fram án trúverðugs rökstuðnings?

Hér vantar að skoða heildarmyndina og heildaráhrif aðgerðanna. Það skortir. Landsmenn gera ríkari kröfur en þetta til stjórnvalda. Við sættum okkur ekki við þau vinnubrögð sem hér hefur verið beitt. Kjósendur hugsa sitt. Það ættu stjórnmálamenn þó að skilja.