Katrín sögð hafa vitað lengi af hegðun Kolbeins gagnvart konu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, var látin vita af ámælisverðri hegðun Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns flokksins, heilu ári áður en hann tilkynnti að hann væri hættur í stjórnmálum vegna málsins. Þetta fullyrðir Kjarninn og vísar í ónafngreindar heimildir. Katrín svaraði ekki ítrekuðum spurningum um hvenær hún hafi vitað af hegðun Kolbeins.

Þá segir að skjáskot af reynslusögum kvenna af Kolbeini í lokuðum hópi á Facebook hafi verið á flakki daginn sem halda átti framboðsfund 11. maí. Þann sama dag tilkynnti Kolbeinn að hann væri hættur við framboð og viðurkenndi að hann hefði komið illa fram við konur. Er gefið í skyn að tilkynning Kolbeins hafi birst þegar miklar líkur voru á sögurnar rötuðu í fjölmiðla.

Margir gáfu lítið fyrir afsökunarbeiðni Kolbeins á sínum tíma, þar á meðal Hildur Lillendahl.

Sjá einnig: Hildur hamast í Kolbeini: Vonar að hann haldi sig frá sviðsljósinu það sem eftir er

Kjarninn spurði Katrínu fyrst út í málið 17.maí, þá sagði hún að fagráð hefði upplýst sig um kvörtun vegna Kolbeins í byrjun apríl. Eftir þrjár ítrekanir um hvort hún hafi verið látin vita af öðrum en fagráðinu í fyrra sagði Katrín að fagráðið væri „sá farvegur sem rétt er að leita til vegna mögulegrar áreitni eða ofbeldis sem tengist starfi VG.“

„Fagráðið er bundið trúnaði og forysta hreyfingarinnar hefur ekki upplýsingar um það hverjir leita þangað. Að sama skapi teldi ég mig bundna trúnaði ef mögulegur þolandi leitaði til mín. Hvað varðar mál þingmannsins sem spurt er um þá hefur fagráð VG fjallað um það og hann hefur sjálfur ákveðið að draga sig út úr stjórnmálastarfi,“ segir í svari Katrínar.