Katrín segir ósatt til að verja Svandísi

23. desember 2020
20:10
Fréttir & pistlar

Uppnámið sem varð í lok síðustu viku vegna klúðurs heilbrigðisráðherra vindur upp á sig. Svandís Svavarsdóttir hafði haldið innkaupum bóluefnis hjá sér og gætt þess að hleypa engu kunnáttufólki að þessum mikilvægustu viðskiptum þjóðarinnar um árabil.

Enda kom á daginn að kunnáttuleysi og flumbrugangur veldur alvarlegum töfum á afgreiðslu þess bóluefnis sem mun leysa þjóðina úr álögum veirunnar. Ljóst er að Svandís og embættismenn hennar hafa ekki þekkingu á viðskiptum eða innkaupaferli. Mjög er nú gagnrýnt að fagfólk og aðilar með sambönd í viðskiptum hafi ekki fengið að koma að þessu mikilvæga máli.

Þegar klúðrið upplýstist í síðustu viku braust út mikil reiði innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Afsagnar Svandísar var krafist. Það hefur lengi verið illa varðveitt leyndarmál að lagt hefur verið að Svandísi að víkja tímabundið úr embætti ráðherra af ýmsum ástæðum. Því hefur hún hafnað með nokkrum þjósti.

Katrín forsætisráðherra ákvað þá að slá skildi fyrir vinkonu sína Svandísi með því að taka sjálf yfir innkaupaferli bóluefnis. Því neitar hún í viðtölum við fjölmiðla þó flestum sé ljóst að Katrín segir vísvitandi ósatt um stöðu málsins. Það gæti átt eftir að reynast henni dýrkeypt.

Ýmsir málsmetandi menn hafa gagnrýnt sleifarlag ríkisstjórnarinnar harkalega. Munar þar mest um Össur Skarphéðinsson og Kára Stefánsson sem hafa kallað eftir því að íslenskir áhrifamenn nýti strax sambönd sín víða um heim til að útvega þjóðinni nauðsynlegt bóluefni án tafar.

Dagfari telur sig hafa öruggar heimildir fyrir því að það sé einmitt að gerast. Menn úr viðskiptalífinu og stjórnmálum hafa lagt nótt við dag og nýtt sambönd sín til að útvega Íslendingum bóluefni strax.

Vonir standa til þess að takast muni að útvega bóluefni fyrir 250.000 Íslendinga innan fárra sólarhringa.

Ekki er unnt að biðja um betri jólagjöf.

Gleðileg jól!