Katrín launar lambið gráa

Ýmsir furða sig á seinaganginum hjá undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar við rannsókn á talningarklúðrinu í Norðvesturkjördæmi. Málið er í raun einfalt. Ekki hefur verið sýnt fram á annmarka við upphaflega talningu í kjördæminu og úrslitin sem kynnt voru á kosninganótt. Vandræðin byrjuðu ekki fyrr en eftir að úrslit voru kynnt. Þá voru atkvæðin geymd í ólæstum veislusal sem margir höfðu aðgang að. Ljósmyndir sanna að ýmsir nýttu sér þann aðgang. Þar lágu atkvæðin án gæslu í næstum hálfan sólarhring. Eftir það voru þau vitanlega ónýt, ekki hægt að treysta því að ekki hefði verið átt við þau, og „endurtalning“ þeirra því með öllu ómarktæk.

Formaður yfirkjörstjórnar tók síðan upp hjá sjálfum sér að hefja „endurtalningu“, tilkynnti hana ekki eins og vera bar og bauð fulltrúum framboða ekki að hafa fulltrúa við endurtalninguna. Ennfremur mun hann ekki hafa beðið eftir allri yfirkjörstjórninni áður en „endurtalningin“ hófst. Þegar þetta bætist við það, að atkvæðin voru ekki innsigluð eftir fyrri talningu, er ljóst að niðurstaða endurtalningar kemur ekki til greina sem niðurstaða kosningarinnar í Norðvesturkjördæmi. Einnig er ljóst, að það að eitt eða tvö atkvæði komu fram eftir að báðum talningum lauk felur ekki í sér slíka annmarka að ógilda beri kosninguna.

Ekki hefði því átt að taka undirbúningsnefndina langan tíma að komast að þeirri niðurstöðu að upphaflega talningin er gild og á að standa.

Foringjar ríkisstjórnarinnar eru hins vegar staðráðnir í að láta „endurtalninguna“ í Norðvesturkjördæmi gilda. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Katrín Jakobsdóttir getur ekki hugsað sér að Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem yfirgaf VG á kjörtímabilinu og gekk til liðs við Samfylkinguna, verði kjörin þingmaður hjá nýjum flokki. Rósa Björk studdi aldrei ríkisstjórn Katrínar en hlaut þó vegtyllur eins og stjórnarþingmaður væri. Hún var til dæmis varaformaður utanríkismálanefndar. Katrín taldi sig hafa gert vel við Rósu Björk en fengið blauta tusku framan í sig að launum. Samkvæmt upphaflegri talningu var Rósa Björk réttkjörin á þing en datt út við hina furðulegu „endurtalningu“.

Öllum ríkisstjórnarflokkunum þóknast svo betur að Bergþór Ólason sé þingmaður Miðflokksins en Karl Gauti Hjaltason, telja það veikja Miðflokkinn og stjórnarandstöðuna.

Stjórnarflokkarnir, ekki síst Sjálfstæðisflokkur, vilja fyrir alla muni halda Guðbrandi Einarssyni inni sem þingmanni Viðreisnar frekar en að fá inn Guðmund Gunnarsson sem getur reynst íhaldinu mun skeinuhættari, en „endurtalningin“ víxlaði Guðmundi út og Guðbrandi inn.

Þess vegna kom „endurtalning“ formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi sem himnasending fyrir formenn stjórnarflokkana, þrátt fyrir að lagalega standi ekki steinn yfir steini varðandi þá „endurtalningu“. Hún skal gilda. Til þess að svo verði þarf hins vegar að tryggja að kjörbréfanefnd leggi til að „endurtalningin“ verði látin gilda og að Alþingi hafi engan tíma til að fara ofan í saumana á málinu.

Af þeirri ástæðu var Birgi Ármannssyni falið að sjá til þess að starf undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar drægist á langinn eins og mögulegt væri til að engin hætta væri á að kjörbréfanefnd eða þingið sjálft gæti gefið sér tíma í að fara vandlega yfir mögulegar lausnir á klúðrinu.

Nú kemur Alþingi saman í næstu viku og stendur frammi fyrir því að samþykkja kjörbréf samkvæmt „endurtalningunni“, ella fari fram uppkosning í Norðvestur kjördæmi sem öllum er ljóst að er óásættanleg niðurstaða og aðför að lýðræði í landinu. Með fjárlögin hangandi yfir þinginu verður lítil sem engin umræða um kjörbréfin. Tillaga kjörbréfanefndar verður samþykkt.

Sú niðurstaða mun hins vegar draga dilk á eftir sér vegna þess að málið fer til Strassborgar sem hefur undanfarin ár vart haft undan við að kveða upp áfellisdóma vegna mannréttindabrota á Íslandi sem stafa af því hve einbeittur brotavilji er ráðandi þegar kerfið stendur frammi fyrir því að virða mannréttindi og reglur réttarríkisins eða brjóta á fólki.

- Ólafur Arnarson