Katrín jakobsdóttir í 21: meiri opinbera fjárfestingu þarf vegna kólnunar í hagkerfinu

Það eru blikur á lofti í íslensku samfélagi –hagsæld þjóðarinnar er í húfi eins og staðan er í efnahagslífinu ef marka má talsmenn í iðnaði og atvinnulífinu.

 Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinsri grænna var gestur Lindu Blöndal og Sigmundar Ernis í þættinum 21 á miðvikudagskvöldi.

Ný könnun sem Samtök iðnaðarins (SI) lét gera sýnir að tæplega 90 prósent framleiðslufyrirtækja landsins ætla að grípa til hagræðinga, uppsagna þar á meðal. Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI hefur bent á að það stefnir í mesta atvinnuleysi í þrjá áratugi að undanskildu hrunárinu sjálfu. Útflutningstekjur séu að minnka og ekki jafn mikið í þrjá áratugi.

Opinberar fjárfestingar verði meiri

 Aðspurð segir Katrín að viðbrögð stjórnvalda eigi að finna í útgjaldahlið ríkissjóðs, auka eigi opinberar fjárfestingar fyrst og fremst. Hvort lækka eigi skatta á fyrirtæki segir Katrín að undanfarið hafi verið unnið að lækkun tryggingagjaldsins og ekki verði nein skyndiviðbrögð í þá veru vegna þess sem framundan er framundan í atvinnulífinu.

 „Þetta er ekki samt hagsveifla eins og við höfum séð hana áður. Við erum ekki að sjá gengið fara í sveiflur, við erum ekki að sjá vexti fara upp eða verðlag, Seðlabankinn hefur þvert á móti einmitt verið að bregðast skynsamlega við með því að lækka vexti“, segir Katrín.

„Við þurfum að horfa á þessa þróun síðastliðið ár, Wow fór á hausinn, loðnubrestur og aftur núna“

 Lækkun vaxta ekki að skila sér

„Það eru vissulega blikur á lofti, við höfum verið að sjá kólnun. Það sem ég er að segja, við höfum verið að bregðast alveg rétt við þannig að við erum ekki að fara í dýfu eins og við höfum séð áður í hagsögunni“, bætir Katrín við og áhyggjur manna séu um að þessum lækkunum sé ekki miðlað með nægilega skilvirkum hætti í gegnum fjármálakerfið.

Áhyggjuefni að útlán banka dragist saman

Útlán banka eru að dragast saman. Katrín segir það áhyggjuefni. „Ríkisstjórnin hefur verið að stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði, fyrst í gegnum lífskjarasamningana með þeim aðgerðum sem við lögðum þar fram upp á 80 milljarða króna“, segir Katrín og það hafi verið létt á skattbyrði lægstu tekjuhópa.

„Þessi ríkisstjórn hefur aukið opinbera fjárfestinu um 45 prósent frá því hún tók við“, segir Katrín en ríkisstjórnin hefur starfað í tvö ár eða frá 2017. Hún segir að opinber fjárfesting sé það sem ríkisvaldið geti gert í kólnandi hagkerfi: „Þar getum við aukið verulega í“.  

Höfum komið í veg fyrir dýfu

„Við bara horfumst í augu við það að það er að kólna í hagkerfinu, atvinnuleysi var nú síðast í 3,3 prósent, það gæti farið vaxandi ef spár greiningaraðila ganga eftir þannig að sjálfsögðu eru blikur á lofti og þá þurfum við að skoða hvað við getum gert frekar. En það sem ég er að benda á er að það sem við höfum verið að gera varðandi peningastefnu, stefnu í vinnumarkaðsmálum, stefnu í ríkisfjármálum, það hefur allt unnið saman og komið i veg fyrir að við séum að fara í einhverja dýfu“

Aðspurð um að lækka skatta á fyrirtæki segir Katrín: „ Ja við höfum verið að lækka tryggingargjald og lækkað skatta á teljulægri og komið á móts við hagkerfið þannig. En ég held að við verðum að horfast í augu við það að við verðum að gefa meira í opinbera fjárfestingu“.