Katrín: „Fyllist virðingu gagn­vart því góða fag­lega starfi sem þar fer fram“

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og for­maður VG, skrifar um menntun í Frétta­blaðinu í dag en hún er ný­komin heim frá leið­toga­fundi Sam­einuðu þjóðanna um menntun.

„Mennta­málin eru í brenni­depli – ekki síst vegna þess að menntun getur verið lykill að árangri á svo fjölda­mörgum sviðum. Í kjöl­farið átti ég góðan fund með full­trúum kennara og stjórn­enda til að ræða stöðuna í ís­lensku skóla­kerfi,“ skrifar Katrín.

„Við eigum ýmis jöfnunar­tæki í sam­fé­lagi okkar. Skatt­kerfið er eitt þeirra, mennta­kerfið er annað. Í skólunum okkar á öllum skóla­stigum mætast ó­líkar hópar barna, með ó­líkan bak­grunn og lífs­reynslu. Þar gefst ein­stakt tæki­færi til að hlúa að hverjum og einum og tryggja að öll börn fái tæki­færi til að þroska hæfi­leika sína og vaxa og dafna,“ skrifar Katrín.

Hún segir kennara og skóla­fólk ekki síst hafa sýnt dug sinn í far­aldrinum.

„Skóla­fólkið okkar stóð vaktina í gegnum tvö ár af heims­far­aldri þar sem á­fram var tryggt að börn gætu sótt skóla þrátt fyrir sótt­varna­tak­markanir. Kennarar, skóla­stjórn­endur og annað starfs­fólk skóla þurfti reglu­lega að endur­skipu­leggja allt starf skólanna til að tryggja menntun barnanna okkar.“

„Á sama tíma hafa skólarnir okkar gengið í gegnum ógnar­hraðar breytingar þar sem nem­enda­hópurinn hefur orðið fjöl­breyttari, ný tækni hefur breytt náms­um­hverfinu og sam­fé­lags­miðlar hafa breytt öllum sam­skiptum barna og full­orðinna,“ skrifar Katrín.

„Reglu­lega heim­sæki ég skóla og fyllist virðingu gagn­vart því góða fag­lega starfi sem þar fer fram – stundum við flóknar að­stæður þar sem nem­enda­hópurinn talar mörg tungu­mál, sumir nem­endur koma úr erfiðum að­stæðum og börnin öll þurfa að ræða heims­málin, á­hyggjur sínar af lofts­lagi, stríði og öðrum sam­fé­lags­legum á­skorunum.“

„Á undan­förnum árum höfum við stigið stór skref til að efla far­sæld barna með því að breyta lögum og reglum um mál­efni barna. Hugsunin er sú að búa vel að hverju einasta barni og tryggja þannig far­sæld sam­fé­lagsins alls. Skólarnir okkar eru lykil­stofnanir í þessu sam­hengi og það skiptir miklu að við sem sam­fé­lag búum vel að þeim – bæði starfs­fólki og nem­endum. Þannig tryggjum við aukna vel­sæld í sam­fé­laginu öllu,“ skrifar Katrín að lokum.