Katla látin aðeins 57 ára að aldri

Katla Þorsteinsdóttir lögfræðingur er látin eftir baráttu við krabbamein. Katla var 57 ára og lét mikið að sér kveða, til dæmis varðandi mannréttindamál hér á landi.

Greint er frá andláti Kötlu á vef Vísis sem vísar í tilkynningu frá aðstandendum. Hún lést á heimili sínu í gær.

Eins og bent er á í umfjöllun Vísis lét Katla sig mannréttindamál varða og kom að starfi Alþjóðahúss eftir stofnun þess. Þá var hún framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða Kross Íslands um tíu ára skeið og kom að opnun Konukots.

Þá starfaði hún hjá Útlendingastofnun, Útfararstofu kirkjugarðanna auk þess að sitja í stjórn Píeta-samtakanna. Katla lætur eftir sig fimm börn og sextán barnabörn.