Kárnar nú gamanið innan ríkisstjórnar

Fyrstu leiðtogaumræðurnar fyrir komandi Alþingiskosningar fóru fram á RÚV í gærkvöldi. Uppröðunin var næsta brosleg, tíu manns í röð eins og beljur á bás. Fulltrúar flokka með allt niður í núllfylgi. Það hlýtur að vera kvöl fyrir ráðherra að standa í svona ati. Eins og við var að búast ristu umræður talsmanna tíu framboða grunnt. Fátt kom á óvart og greinilegt er að sum framboðanna hafa lítið fram að færa annað en margtuggnar klisjur eða fálmkenndar og ómótaðar hugmyndir. Ekki einskorðast þessi lýsing við ný framboð.
Greinilegt er að Sjálfstæðisflokkurinn vill helst halda núverandi vinstri stjórn áfram eftir kosningar, haldi hún velli. Bjarni Benediktsson sér engan þann ágreining milli stjórnarflokkanna í helstu málum sem komið gæti í veg fyrir áframhaldandi samstarf enda þótt hann hafi yppt eilítið öxlum yfir hernaði heilbrigðisráðherra gegn einkarekstri í íslensku heilbrigðiskerfi.
Áhugi formanna Vinstri grænna og Framsóknar á áframhaldandi vinstri stjórn virðist ekki vera jafn fölskvalaus og áhugi Bjarna. Bersýnilega vill Katrín gjarnan nýja vinstri stjórn með Samfylkingu, Sósíalistaflokknum, Flokki fólksins og einhverjum fleiri ef með þarf. Sigurður Ingi vill miðjustjórn enda blasir við að hann myndi leiða slíka stjórn. Eitthvað virðist samkomulagið innan ríkisstjórnarinnar því vera farið að trosna og segja mætti að þátturinn í gær hafi dregið fram að innan stjórnarinnar sé „hver sáttahöndin upp á mót annarri“.
Þetta fyrirkomulag, að etja tíu manns gegn hver öðrum er vont. Það tryggir að áhorf er mjög lítið. Svona umræður eru einfaldlega ekki spennandi á að hlíða. Þá var hvimleitt að hlusta á ítrekuð framíköll sumra þátttakenda. Hefði ekki verið hægt að slökkva á hljóðnemum þeirra sem ekki höfðu orðið? Óneitanlega vaknar sú spurning hvort lýðræðinu sé einhver greiði gerður með því að hleypa öllum framboðum að í svona umræðum, óháð því hvort þau hafa yfirleitt eitthvað fylgi.
Ekki fer á milli mála að kosningar eru handan við hornið. Formenn ríkisstjórnarflokkanna tala nú á ný fjálglega um stefnumálin sem þeir seldu fyrir sæti í ríkisstjórn fyrir fjórum árum. Nú eiga kjósendur að trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn leggi raunverulega áherslu á að einkarekstur fái þrifist samhliða opinbera heilbrigðiskerfinu. Katrín Jakobsdóttir lagði raunar áherslu á að segja sem minnst í gær en passaði sig á því að brosa ekki og koma fram sem alvörugefinn þjóðarleiðtogi. Það gekk bærilega en óvíst er að hin alvörugefna Katrín sé sú sem kjósendur vilja. Það getur reynst stjórnmálamönnum skeinuhætt að láta almannatengla og sérfræðinga í fjölmiðlaframkomu stýra sér um of.
Athygli vakti í umræðunum í gær að mikill samhljómur var milli Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þeir flokkar virðast til dæmis einhuga um að leyfa þjóðinni ekki að ákveða næstu skref í gjaldmiðils- og ESB-málum. Aðrir flokkar virðast opnir fyrir því. Kannski ræður það einhverju í stjórnarmyndun eftir kosningar.
- Ólafur Arnarson