Karl segir Sjálf­stæðis­menn líta á stjórn­skipan landsins sem eigin prívat­leik­völl

„Ráð­herrar Sjálf­stæðis­flokksins virðast líta á stjórn­skipan landsins sem sinn flokks­lega prívat leik­völl,“ segir Karl Th. Birgis­son, rit­stjóri Herðu­breiðar, í pistli á vef sínum.

Þar gerir hann úr­skurð yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu í Lands­réttar­málinu svo­kallaða að um­tals­efni. Eins og kunnugt er stað­festi yfir­deildin dóm réttarins í Lands­réttar­málinu í fyrra.

Karl setur málið í sam­hengi við leka­málið sem varð til þess að Hanna Birna Kristjáns­dóttir, þá­verandi innan­ríkis­ráð­herra, hrökklaðist frá völdum.

„Hanna Birna sagði rétti­lega af sér em­bætti enda mega dóms­mála­ráð­herrar ekki hafa af­skipti af rann­sóknum lög­reglunnar. Það er eigin­lega mjög beisik. Nema hjá ráð­herrum flokka sem líta á völd sem her­fang og einka­mál. Enda sagði Hanna Birna ekki af sér af því að hún hefði gert neitt rangt. Hún var fórnar­lamb í ljótum pólitískum leik, að eigin sögn. Og miklu frekar af því að hún er kona,“ segir Karl meðal annars.

Hann fer svo yfir mál Sig­ríðar Ander­sen sem var dóms­mála­ráð­herra þegar hún fékk það hlut­verk að skipa dómara við nýtt dóm­stig í landinu, Lands­rétt.

„Sig­ríður fékk til sín niður­stöður nefndar um hverjir væru hæfastir, en leizt ekkert á þær. Raunar heldur ekki sumum í Við­reisn, sem sátu þá með henni í ríkis­stjórn. Af­staðan til dóms­kerfisins var nokkurn veginn þessi: Ég á þetta, ég má þetta,“ segir hann.

Eftir­málin þekkja ef­laust flestir en loka­hnykkurinn í málinu kom í gær.

„Skýr og klár brot. Graf­alvar­leg meir­að­segja. Hún hlustaði ekki á í­trekaðar við­varanir frá ráð­gjöfum sínum. Þetta er niður­staða beggja dóm­stiga Mann­réttinda­dóms­stóls Evrópu. Sam­hljóða á efra stiginu,“ segir hann og vísar í við­brögð Sig­ríðar í við­tali við Frétta­blaðið í gær þess efnis að um „pólitískt at“ væri að ræða.

„Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu er að senda skila­boð til valin­kunnra al­þjóð­legra flokks­syst­kina Sig­ríðar Ander­sen, sem ráða í kunnum lýð­ræðis­ríkjum á borð við Tyrk­land, Ung­verja­land og Pól­land. Þar hafa ráða­menn nefni­lega verið að skipa dómara eftir pólitískum hentug­leikum rétt eins og Sig­ríður Ander­sen. Og Sjálf­stæðis- og Fram­sóknar­flokkur reyndar ára­tugum saman.“

Karl segir að það virðist ekki hvarfla að Sig­ríði í hvers konar fé­lags­skap hún er með Erdogan Tyrk­lands­for­seta og Or­ban for­seta Ung­verja­lands og hvers vegna glöp hennar í em­bætti séu notuð til að láta þá vita að slík vinnu­brögð séu ekki í lagi.

„Nei. Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu er nefni­lega að ráðast inn á prívat­leik­völl Sjálf­stæðis­flokksins og þar með hennar. Þess vegna er niður­staða hans pólitískt at. Gegn henni sjálfri per­sónu­lega í þokka­bót. Og hún er náttúr­lega fórnar­lambið. Ekki réttar­farið í landinu.“