Karl segir ekki veita af pálmatré í Vogabyggð: „Bera með sér andblæ suðrænna landa“

Búið er að fækka fyrirhuguðum pálmatrjám í Vogabyggð úr tveimur niður í eitt. Fram kemur í Morgunblaðinuí dag að verkið hafi staðist raun­hæf­is­mat en uppfært kostnaðarmat sé enn í skoðun.

Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sem hefur verið orðaður við framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum, segir á Facebook að það veiti ekki af einu pálmatré í Vogabyggð. Ljóst er að kaldhæðnin lekur af Karli þegar hann lætur orðin falla.

„Draga má þá ályktun að kostnaður hafi þar áhrif - en hann mun vera áætlaður á annað hundrað milljónir króna - liggur reyndar ekki endanlega fyrir þrátt fyrir að tillagan hafi verið samþykkt fyrir tveimur árum,“ segir Karl. „Gleymum því ekki heldur að pálmatré bera með sér "andblæ suðrænna landa," eins og höfundur tillögunnar sagði á sínum tíma.“

Það veiti ekki af í nýja hverfinu: „Veitir ekki af í Vogahverfinu, þar sem búið er að hrúga saman miklum fjölda íbúða á litlu svæði og bílastæði eru sjaldséðari en geirfuglinn.“