Karl minnist Kristófers: „Nú þarf ég að bregða mér afsíðis og gráta“

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, minnist vinar síns, Kristófers Más Kristinssonar, með hlýjum orðum í pistli á vef sínum.

Kristófer lést aðfaranótt síðastliðins mánudags, 72 ára að aldri, en hann var meðal annars varaþingmaður Bandalags jafnaðarmanna og blaðamaður á Morgunblaðinu.

Vinátta þeirra Karls og Kristófers var um margt einstök en Karl var tvítugur þegar þeir kynntust en Kristófer 35 ára.

„Á yfirborðinu áttum við það eitt sameiginlegt, að hafa gengið til liðs við Bandalag jafnaðarmanna. Sumsé Vilmund,“ segir Karl í grein sinni. „Nú var Vilmundur dáinn, flokkurinn í talsverðu uppnámi, og Kristó varaþingmaður. Stundum starfsmaður flokksins.“

Eftirlifandi eiginkona Kristófers er Valgerður Bjarnadóttir, ekkja Vilmundar Gylfasonar, og segir Karl að ekkert hafi verið einfalt við það að þau fóru að draga sig saman. „Ef þið haldið að kommentakerfi nútímans séu miskunnarlaus, þá hafið þið alveg gleymt slúðurkerlingum þess tíma (af báðum kynjum). En við það dvel ég ekki lengur.“

Karl segir að í öllum hans fríum á Íslandi hafi þeir sótt í félagsskap hvor annars. Karl rifjar svo upp einstaka vináttu þeirra.

„Ég veit ekki enn hvers vegna hann vildi verða vinur minn – sennilega vantaði hann félagsskap í Reykjavík – en af minni hálfu var svarið alveg augljóst. Kristófer var nefnilega einhver alskemmtilegasti og gáfaðasti maður sem ég hef kynnzt. Og er þó af nokkrum að taka.“

Minningarorð Karls má lesa í heild sinni á vef Herðubreiðar en pistilinn endar hann á þessum orðum: „I never loved a man more than you,“ En nú þarf ég að bregða mér afsíðis og gráta.“