Karl kennir mikilvæga lexíu: Segir stjórnmálamönnum að halda kjafti

Fjölmiðlamaðurinn Karl Th. Birgisson kennir stjórnmálamönnum mikilvæga lexíu í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir hann tjáningar­frelsið vera á­kaf­lega mikil­vægt, en bendir á að þó sé mikilvægt að um­gangast það varlega og segir það gilda um stjórnmálamenn.

„Í vikunni sá Ás­mundur víð­förli Frið­riks­son á­stæðu til þess að ráðast á starfs­fólk Ríkis­út­varpsins og nafn­greinda leik­konu úr ræðu­stóli al­þingis.

Til­efnið þarf ekki að koma þeim á ó­vart, sem hafa heyrt Ás­mund tala um út­lendinga, mús­limista og fleira úr þeim ranni.

Honum þótti Ríkis­út­varpið víta­vert af því að Ilmur Kristjáns­dóttir og Gísli Marteinn Baldurs­son töluðu af „dóna­skap“ um for­stjóra Út­lendinga­stofnunar.“

Karl segir að tjáningarfrelsið sé einmitt mikilvægast fyrir þá sem eru dónalegir, stuða og ögra, þá skipti það mestu máli.

„Skilnings­leysi þing­mannsins á þessari stað­reynd er eitt. Hitt er al­var­legra að hann telji sig – því að hann er þrátt fyrir allt í ein­hvers konar valda­stöðu – að hann telji sig mega blása svona í ræðu­stóli.

Hann má það ekki. Ein­mitt af því að hann er al­þingis­maður og hefur at­kvæðis­rétt um fjár­fram­lög til Ríkis­út­varpsins.“

Þetta segir Karl sem tekur síðan Andrés Inga Jónsson, þingmann Pírata fyrir.

„Annar þing­maður, Andrés Ingi Jóns­son, hélt sig lík­lega vera að and­mæla Ás­mundi þegar hann féll í sama pytt með gusu­gangi og lýsti að­dáun sinni á til­teknum dag­skrár­lið í Ríkis­út­varpinu.

Sko. Ás­mundur og Andrés mega hafa skoðun á því sem þeir vilja, en sem al­þingis­menn þurfa þeir að kunna að hemja sig.

Starfinu fylgja nefni­lega tjáningar­mörk. Ef þeir eru ó­sáttir við þau, þá er þeim frjálst að fá sér aðra vinnu og gaspra um Gísla Martein eins og þeir vilja. Eða barna­efni í sjón­varpinu.“

Þá víkur Karl sér að manninum sem eflaust flestir hugsa um í þessari umræðu, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, Brynjar Nílesson.

„Þar er nú annar, sem gerir sér enga grein fyrir stöðu sinni, hvort heldur sem al­þingis­maður eða að­stoðar­maður dóms­mála­ráð­herra. Hann blaðrar um Rauða krossinn sem í­gildi pólitískra and­stæðinga, svo ný­legt dæmi sé til­greint.

Við höfum lík­lega mörg til­hneigingu til að fyrir­gefa Brynjari vit­leysuna, af því að hann er húmor­isti og vel meinandi manneskja. En dóm­greindar­leysið minnkar ekki við það.“

Til þess að passa upp á að fólk haldi ekki að athugasemdir Karls séu flokks­pólitískar minnist hann einnig á Helgu Völu Helga­dóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.

„Þegar Namibíu­málið kom upp krafðist Helga Vala Helga­dóttir þess í þing­sal að eignir Sam­herja yrðu kyrr­settar.

Það er ekki hlut­verk lög­gjafans að heimta kyrr­setningu á eignum fyrir­tækja úti í bæ, hvort sem þau heita Sam­herji eða Sorpa. Til þess höfum við dóm­stóla og eftir at­vikum sýslu­menn.“

Hægt er að lesa grein Karls í heild sinni hér, en hann tekur enn fleiri fyrir.