Karl Gauti hefur áhyggjur af aukinni fíkniefnaneyslu á Austurvelli – Biggi lögga segir stríðið tapað

„Áttum okkur líka á því að eiturlyfjaneysla mun eiga sér stað fyrir allra augum á almannafæri ef þetta verður að lögum, einnig hér á Austurvelli,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, í ræðu sinni um störf þingsins á Alþingi í gær.

Sem kunnugt er hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lagt fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta. Ef frumvarpið verður að lögum verður varsla neysluskammta ekki refsiverð og mun lögregla ekki geta gert efni til einkanota upptækt hjá fullorðnum.

Sitt sýnist hverjum um þetta og eru taldar yfirgnæfandi líkur á að frumvarpið verði samþykkt.

Hefur áhyggjur af lögreglunni

Í ræðu sinni Karl Gauti að sannarlega ætti ekki að varpa þeim í fangelsi sem eru með neysluskammta á sér og að flestir gætu verið sammála um að hér sé um heilbrigðismál að ræða.

„Ég hef miklar áhyggjur af þessu máli frá sjónarhóli löggæslunnar. Frá hennar sjónarmiði mun allt eftirlit með sölu fíkniefna verða erfiðara. Þannig er ég hræddur um að neytendur muni veifa þessum efnum framan í lögreglu sem stendur eftir úrræðalaus,“ sagði hann meðal annars og bætti við að neysla myndi eiga sér stað fyrir allra augum.

„Alkunna er að þeir sem byrja í tiltölulega skaðlegum vímuefnum leiðast gjarnan yfir í stórhættuleg efni. Það hefur haft fælingaráhrif og ég hef áhyggjur af því að hugsanlega muni þessi breyting verða til þess að hömlur margra á að prófa hverfi. Ég tel að það mætti t.d. fara þá leið að milda refsingar í þessum málum. Til að mynda gæti verið mikilvægt skref að refsing þeirra sem lögreglan hefði afskipti af og væru með neysluskammta, kæmi aldrei fram á sakavottorði og yrði eytt úr skrám lögreglu t.d. eftir tvö ár,“ sagði Karl Gauti.

Biggi lögga ósammála


Nokkrar umsagnir um frumvarpið hafa birst á samráðsgátt stjórnvalda og er ein þeirra frá Birgi Erni Guðjónssyni, Bigga löggu, sem starfað hefur sem lögreglumaður í nær tvo áratugi. Málaflokkurinn er Birgi mjög hugleikinn og hefur hann til dæmis unnið mikið í forvörnum hjá lögreglunni. Birgir er mjög fylgjandi frumvarpinu.

„Sú stefna sem verið hefur við líði síðustu áratugi er viðkemur glæpavæðingu ákveðinna vímuefna er ekki aðeins tímaskekkja, heldur beinlínis skaðleg fyrir bæði einstaklinga og samfélagið í heild. Það hjálpar ekki á neinn hátt að merkja þann sem afbrotamann sem notar eða hefur ánetjast vímuefnum. Þvert á móti eru þá auknar líkur á jaðarsetningu og auknum félagslegum vandamálum. Bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og fjölskyldu hans. Ein afleiðing þeirrar jaðarsetningar er aukin hætta á að viðkomandi vilji ekki opinbera vanda sinn og leita sér aðstoðar,“ segir Birgir meðal annars í umsögn sinni og bætir við að afglæpavæðing feli ekki í sér samþykki eða „normalíseringu“ á vímuefnum eins og margir óttast.

„Síður en svo. Ekki frekar en t.d. að það sé normalisering á sígarettum að þær séu ekki ólöglegar. Forvarnir þar sem unnið er markvisst að minni eftirspurn eftir vímuefnum, sem og fræðsla um hugsanlega skaðsemi mismunandi efna er mjög mikilvæg í þessu ferli,“ segir Birgir sem endar umsögn sína á þessum orðum:

„Sú orka og það fjármagn sem hefur farið í baráttuna gegn vímuefnum hefur því miður engu skilað. Þar tala allar tölur og rannsóknir sínu máli. Sífellt fleiri þjóðir eru að vakna upp og átta sig á þeirri staðreynd. Það er löngu kominn tími til að breyta um aðferð. Það skref sem hér um ræðir er bæði mannúðlegri nálgun og mun líklegri til árangurs.“