Karl Ágúst vildi að Spaugstofan héldi áfram: „Ég fékk þetta aldrei samþykkt“

Karl Ágúst Úlfsson, leikari, handritshöfundur og leikstjóri, segir frá því í hlaðvarpsþætti Gunnars Smára Egilssonar, Rauða borðinu, að hann hafi viljað að Spaugstofan héldi áfram á sínum tíma en þó í nokkuð annarri mynd en sjónvarpsáhorfendur voru vanir.

Spaugstofan var einn vinsælasti þáttur landsins um árabil en hann hóf göngu sína árið 1989 og var hann sýndur með hléum á Stöð 2 og RÚV allt til ársins 2014. Lengst var Spaugstofan á RÚV en árið 2010 var ákveðið að hætta með hann og þá fluttu Spaugstofumenn sig yfir á Stöð 2.

Karl Ágúst sagði í þættinum sem sýndur var í síðustu viku að hann hafi viljað fá unga grínista inn í hópinn til að taka við af honum, Erni Árnasyni, Sigurði Sigurjónssyni, Pálma Gestssyni og Randveri Þorlákssyni með tíð og tíma.

Karl Ágúst benti á það að Spaugstofumenn hefðu safnað að sér mikilli kunnáttu og reynslu á efnistökum – eitthvað sem Karl hefði gjarnan viljað skila til þeirra sem hefðu áhuga á að læra og vinna á svipuðu plani og þeir. Þegar Gunnar Smári gekk á Karl ágúst og spurði hann hvort Spaugstofan væri að byrja aftur sagði Karl svo ekki vera – því miður.

„Ég fékk þetta aldrei samþykkt. Ég fékk aldrei hljómgrunn fyrir þessu alveg sama hvar ég nefndi þetta. Þeir sem réðu þessu kærðu sig ekki um þetta,“ sagði Karl.

Eflaust myndu margir fagna því að fá Spaugstofuna aftur á dagskrá enda gerðu grínistarnir stólpagrín að því sem gerðist í íslensku samfélagi. Um þessar mundir ætti að minnsta kosti að vera af nógu að taka.

Þáttinnmá sjá hér en umræður um Spaugstofuna byrja þegar rúmlega 30 mínútur eru búnar.