Karl Ágúst minnist góðs vinar: „Farðu í friði, góði og fallegi félagi“

„Farðu í friði, góði og fallegi félagi, og hafðu þakkir fyrir allt sem þú gafst mér,“ segir Karl Ágúst Úlfsson, leikari, leikstjóri og þýðandi, í færslu á Facebook-síðu sinni. Þar minnist hann vinar síns Jóns Sigurbjörnssonar, leikara og óperusöngvara, með hlýjum orðum.

Jón andaðist á Hrafnistu síðastliðinn þriðjudag, 30. nóvember, 99 ára að aldri. Hann hóf leiklistarferil sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur vorið 1949 og var fastráðinn við Þjóðleikhúsið 1960 til 1967. Hann stundaði söngnám í New York samhliða leiklistarnámi og lagði einnig stund á söngnám á Ítalíu. Jón var einnig mikilvirkur leikstjóri og leikstýrði fjölda sýninga hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

Jón, eða Nonni Sibb, eins og Karl Ágúst kallaði hann segir hann hafa verið máttarstólpa og makalausan listanamm.

„Einn af þeim sem ég dáði mest þegar ég staulaðist inn í leikhúsið barn að aldri og sú aðdáun entist alla tíð okkar beggja. Nonni var sá sem sýndi reynslulausum og ráðvilltum leikara skilning og hlýju og var alltaf til í þau fíflalæti sem á þurfti að halda svo vinnudagurinn yrði bærilegur,“ segir Karl Ágúst og bætir við að þeir hafi leikið í þó nokkrum sýningum og leikstýrt hvor öðrum.

„En hvert sem samband okkar var í það og það skiptið var hann alltaf sá sem ég leit upp til, dáðist að og vildi gera að fyrirmynd.“

Karl var 16 ára þegar leiðir hans og Jóns lágu fyrst saman í Róm. „Hann var þar fararstjóri og ég einn af þeim sem treystu á þekkingu hans og kynnum af borginni eilífu. Og ekki brást hann mér fremur en öðrum. Ég skoðaði með honum Vadikanið, Pantheon, Trevi, Colosseum, Forum Romana, ég sá með honum Aídu í Caracalla og svo skoðuðum við Pompei og Capri þegar leiðin lá suður á bóginn. Og þvílíkur leiðsögumaður! Ítalskan vafðist ekki fyrir honum, enda hafði hann menntað sig þar í landi, og unglingurinn mændi á hann bæði stoltur og svolítið öfundsjúkur.“

Þeir urðu svo kollegar fáeinum árum síðar.

„Ég fékk að sitja í með honum vestur í Stykkishólm, en þaðan tókum við Baldur á Brjánslæk til þess að leika í Útlaganum í Hergilsey. Hann Ingjald bónda, ég fíflið son hans. Þetta er ógleymanleg ferð - við spjölluðum, við hlógum - og við sungum. Aðallega Jón auðvitað, það var hann sem hafði röddina og kunnáttuna, en úti í Hergilsey skemmti ég mér við að ganga upp að honum og raula fyrstu línurnar úr Hvað er svo glatt, og það brást ekki að hann tók undir og á endanum sungum við heilt erindi til enda, með eða án texta, oft sem trompet og básúna, en stundum sem sauðdrukknir Hafnarstúdentar.“

Minningarorð Karls Ágúst má lesa í heild sinni í færslunni hans hér að neðan.

Fleiri fréttir