Karl Ágúst lenti í erfiðum leigubílstjóra: „Ég heyrði á raddblænum að honum fannst ég frekar tregur“

Karl Ágúst Úlfsson, einn af okkar ástsælustu leikurum og handritshöfundum, er staddur í Róm á Ítalíu þessa dagana. Hann segir frá hressilegri uppákomu í borginni í gærkvöldi á Facebook-síðu sinni.

„Ég er búinn að vera hér í um það bil þrjár vikur, en í kvöld kynntist ég aftur þeirri Róm sem ég eitt sinn þekkti. Það gerðist svona: Við pöntuðum leigubíl og báðum bílstjórann að aka okkur inn á Piazza Trilussa. Ég settist í framsætið og þegar bíllinn rann af stað bjóst ég til að spenna á mig bílbeltið,“ segir Karl Ágúst í færslu sinni.

Hann segir að bílstjórinn hafi verið fljótur að benda honum á að beltið þyrfti hann ekki að spenna. „Nei, ekkert svona,“ sagði bílstjórinn. Ég treysti ekki ítölskukunnáttunni sérstaklega vel, svo ég hélt áfram að bisa við beltið. „Nei, sagði hann aftur, þetta er Róm. Það þarf ekkert svona.“

Ferðafélagi Karls Ágústs, Ágústa Skúladóttir, sagt í aftursætinu og henni gekk einnig brösuglega að spenna beltið. Virtust beltin hreinlega vera biluð.

„Við ókum yfir Ponte Giuseppe Mazzini og bílstjórinn skrúfaði niður rúðuna og byrjaði að æpa á bláan Fiat sem var næst fyrir framan okkur,“ segir Karl og vitnar í skapheitan leigubílstjórann.

„Þú kemst miklu lengra til vinstri, vitleysingur! Kanntu engar umferðarreglur? Hei! Ég er að tala við þig á Fiatlúsinni! (Flaut!) Ef þú héldir þig til vinstri eins og til er ætlast, þá væri ég löngu kominn að ljósunum og líklega yfir gatnamótin! Heyrirðu það, hálfviti? (Flauuuuuut!).“

Karl segist kannski ekki hafa skilið hvert orð en hann skildi tóninn í röddinni og hann var ekki vinsamlegur, þvert á móti.

„Að lokum sveigði hann upp að gangstéttinni og benti inn götu á hægri hönd. „Þið getið gengið héðan. Það er í þessa átt.“ Við vissum vel að það væri að minnsta kosti tíu mínútna gangur að Piazza Trilussa. Við höfðum einmitt ætlað að spara okkur gönguna, og það var reyndar ástæðan fyrir því að við tókum leigubíl. En gott og vel. Ég tók upp krítarkortið mitt.“

Ekki vildi betur til en svo að bílstjórinn sagðist ekki taka kort, en Karl Ágúst benti honum þá á að hann væri bara með kort. „En ég tek ekki kort, sagði hann og ég heyrði á raddblænum að honum fannst ég frekar tregur,“ segir hann.

Vinkona þeirra í aftursætinu kom þeim svo til bjargar þegar hún fann tíu evru seðil í vasanum og rétti bílstjóranum. „Hann var sáttur við þau málalok. Þegar ég steig út úr bílnum og þakkaði viðskiptin rann það upp fyrir mér að svona hafði mér einmitt fundist Rómverjar upp til hópa þegar ég kom hingað fyrst 16 ára gamall. Svo hafa árin liðið og ég var fyrir löngu búinn að afskrifa þessa klisju. En í kvöld kom hún til mín aftur. Kærar þakkir fyrir það.“