Karl ágúst öskuillur: „kunnum illa að þakka það góða sem okkur er gert“

„Ég bý í samfélagi þar sem læsi og lesskilningur eru á hröðu undanhaldi. Það sem okkur þótti sjálfsagt mál fyrir einhverjum áratugum, að börnin okkar gætu notið þeirra eðlilegu mannréttinda að lesa sér til yndis og gagns, það er ekki sjálfsagt mál lengur. Og ástæðan? Tjah, kannski vantar fjármuni í skólakerfið. Kannski þarf að bæta kjör kennara svo þeir bestu endist í starfi og leiti ekki eitthvað annað eftir lífsviðurværi. Kannski vantar líka betra námsefni. Kannski þurfum við að forgangsraða uppá nýtt og veita peningunum þangað sem raunveruleg verðmæti liggja. Sem sagt í menntun og vellíðan æskunnar. Er það kannski þannig sem við tryggjum framtíð okkar sem þjóðar?“

Þessum spurningum veltir leikarinn Karl Ágúst Úlfsson fyrir sér í pistli sem hann birtir á Facebook síðu sinni. Þar segir hann að vitað mál sé að fjármunir séu til og að Ísland sem ein ríkasta þjóð veraldar gæti hæglega eignast besta og skilvirkasta skólakerfi í heiminum.

Peningarnir skila sér ekki þangað sem þörfin er á þeim

„En við vitum líka, því miður, að peningarnir skila sér ekki þangað sem þörf er á þeim. Þeir sitja í fjárhirslum þeirra sem hafa eignast auðlindir okkar og troða arðinum af þeim í eigin vasa,“ segir Karl.

Hann segist einnig búa í samfélagi þar sem heilbrigðiskerfinu fari hrakandi ár frá ári. Heilbrigðisstarfsfólkið flýi land í stórum hópum vegna slakra launa, kostnaður sjúklinga við lækningar á eigin meinum fari síhækkandi og að lyfjakostnaður verði mörgum ofviða.

„Við horfum ráðþrota uppá stjórnvöld reyna að einkavæða lækningar og gera þeim efnaminni endanlega ókleift að fá bót meina sinna á meðan þeir sem meira mega sín geta haldið heilsu ef sjóðir þeirra endast. Og ástæðan? Ætli vanti kannski fjármuni í heilbrigðiskerfið? Ætli við gætum rétt af þessa skekkju ef við bættum kjör heilbrigðisstarfsfólks svo það gæfist ekki unnvörpum upp á aðstæðum sínum? Er þetta kannski spurning um forgangsröðun? Eða liggja ekki raunveruleg verðmæti í heilbrigði þjóðar, lækningu meina og almennri vellíðan?“

Karl segir þessa fjármuni sem upp á vanti vera til, það sé vitað mál.

„Íslenska heilbrigðiskerfið gæti orðið eitt af þeim bestu í heimi, vegna þess að við eigum fólk sem stenst samanburð við færustu heilbrigðisstéttir veraldar. Meinið er bara að peningarnir sem okkur vantar til að ná þessu marki liggja á aflandsreikningum víðs vegar um heiminn og eru ekki á leiðinni að skila sér á næstunni,“ segir hann.