Kári vill herða að­gerðir útaf nýja af­brigðinu

Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir ljóst að herða þurfi að­gerðir á landa­mærunum vegna nýs af­brigðis veirunnar sem greindist í Mýr­dals­hreppi. Þetta kemur fram ífréttum Ríkisútvarpsins.

Eins og greint hefur verið frá greindist nýtt af­brigði í hópnum sem smitaðist í Mýr­dals­hreppi. Kári segir ó­lík­legt en ekki úti­lokað að hann hafi smitast hér­lendis.

„Nú erum við með gott dæmi um mann sem hafði sýkst, myndað mót­efni, fór til út­landa, kom til baka og reyndist hafa sýkst á nýjan leik með mjög miklu magni af veiru og smitaði fólk í kringum sig. Svona dæmi hlýtur að hafa á­hrif á sótt­varna­að­gerðir. Ég held til dæmis að það væri ekki ó­skyn­sam­legt að skima alla þá sem koma inn í landið hvort svo sem þeir hafi verið bólu­settir eða sýkst áður og setja þá í ein­hverja sótt­kví og skima þá svo á nýjan leik,“ segir Kári.

Sjá einnig: Af­brigði sem aldrei hefur áður sést hér á landi

Hann segir dæmið sýna að varnirnar á landa­mærunum séu ekki nógu þéttar þrátt fyrir allt. Þá bendi gögn bólu­efna­fram­leiðanda til þess að bólu­efni veiti ekki full­komna vörn.

„Það eru mjög mörg dæmi þess að menn hafi verið bólu­settir, myndað mót­efni og smitast engu að síður. Gögnin sem lyfja­fyrir­tæki hafa aflað segja okkur að í besta falli veitir bólu­setning 90 prósent vörn sem þýðir það að 10 prósent þeirra sem hafa verið bólu­settir geta sýkst,“ segir Kári.

Hann segir stökk­breytingar nánast dag­legt brauð en þó fylgi ó­vissa nýju af­brigði. Ekkert bendi til þess að þessi stökk­breyting hagi sér öðru­vísi en breska af­brigðið al­mennt. Engu að síður þurfi að herða eftir­lit við landa­mærin.

„Það sem veldur á­hyggjum hjá okkur í dag er að við höfum núna dæmi um mann sem hafði sýkst af pestinni, var kominn með mót­efni við veirunni, sýkist aftur og smitaði aðra.“