Kári varpar sprengju: Hættir að skima og slítur sam­skiptum við sótt­varna­lækni og land­lækni

6. júlí 2020
14:05
Fréttir & pistlar

„Okkar skoðun er sú að öll fram­koma þín og heil­brigðis­mála­ráð­herra gagn­vart ÍE í þessu máli hafi markast af virðingar­leysi fyrir okkur, fram­lagi okkar og því verk­efni sem við höfum tekið að okkur í þessum far­aldri.“

Þetta segir Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, í að­sendri grein á vef Vísis. Þar til­kynnir Kári að fyrir­tækið sé hætt að skima fyrir kórónu­veirunni sem veldur CO­VID-19.

Kári birtir af­rit af bréfi sem hann sendi Katrínu Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra þann 1. júlí síðast­liðinn. Þar sagði Kári að nú væri svo komið að Ís­lensk erfða­greining gæti ekki sinnt skimunum mikið lengur, meðal annars vegna þess að fyrir­tækið hefur önnur verk að vinna.

„Þess vegna þarf að búa til nýtt afl innan ís­lensks heil­brigðis­kerfis til þess að höndla þetta, Far­alds­fræði­stofnun Ís­lands. Hún þarf að búa að sam­einda­líf­fræði, töl­fræði, stærð­fræði, smit­sjúk­dóma­fræði og á­kveðinni getu til þess að hreyfa verk­efni hratt og á­kveðið,“ sagði Kári í bréfinu.

Svo virðist sem hann hafi ekki verið sáttur við það svar sem Katrín Jakobs­dóttir gaf honum. Þar sagði Katrín að ríkis­stjórnin myndi taka það til skoðunar og frekari úr­vinnslu til­lögu hans um sér­staka stofnun á þessu sviði. Því hafi verið á­kveðið að ráða verk­efna­stjóra undir yfir­stjórn sótt­varna­læknis sem yrði falið að skila til­lögum til ríkis­stjórnarinnar eigi síðar en 15. septem­ber næst­komandi.

Í grein sinni segir Kári að það sé ljóst á svari Katrínar að fyrir henni sé þetta vanda­mál ekki eins brátt og þeim.

„Þú gengur út frá því sem vísu að við ætlum að halda á­fram að sinna skimuninni án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut með það að gera hvernig að henni er staðið sem heild í hugsun og verki. Og það sem meira er þér liggur ekkert á að setja saman appa­rat til þess að taka við af okkur. Þetta gengur ein­fald­lega ekki,“ segir Kári og bætir við að þeir hjá Ís­lenskri erfða­greiningu séu viss um að það sé enginn aðili í landinu sem kunni betur til þeirra verka sem fyrir­tækið hefur tekið að sér.

„Þú ert hins vegar á þeirri skoðun að þú hafir verk­efna­stjóra sem gæti búið til á þessu betri skilning og hjálpað til við að koma þjóðinni á­fram til fram­tíðar­skipu­lags. Okkar skoðun er sú að öll fram­koma þín og heil­brigðis­mála­ráð­herra gagn­vart ÍE í þessu máli hafi markast af virðingar­leysi fyrir okkur, fram­lagi okkar og því verk­efni sem við höfum tekið að okkur í þessum far­aldri. Þetta er ein­fald­lega okkar skoðun og það má vel vera að hún sé byggð á of­mati okkar á okkur sjálfum. Það væri svo sem ekki í fyrsta skiptið sem við of­mætum okkur. Þannig fer nefni­lega hégóm­leiki manna gjarnan með þá en ég er alls ekki að ætlast til þess að þú kannist við það. En nú er okkar þátt­töku lokið og engin á­stæða til þess að erfa það sem orðið er. Við erum búin að skima eftir SARS-CoV-2 í 72452 ein­stak­lingum meðan Land­spítalinn skimaði í 15408. Við erum búin leggja okkar að mörkum og kominn tími til þess að við förum að sinna dag­vinnu okkar og engu öðru. Frá og með deginum í dag 6. júlí munum við hætta öllum sam­skiptum við sótt­varnar­lækni og land­lækni út af SARS-CoV-2. Síðustu sýnin sem við munum af­greiða eru þau sem berast til okkar á mánu­daginn 13. júlí.“

Grein Kára má lesa í heild sinni hér.