Kári útilokar ekki að fara í mál við Hauk

10. október 2020
13:40
Fréttir & pistlar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir ekki útilokað að stjórnsýslufræðingurinn Haukur Arnþórsson verði dreginn fyrir dóm vegna ummæla sinna um Íslenskra erfðagreiningu.

Þetta kemur fram í grein eftir Kára sem birtist á Vísi þar sem hann svarar fyrri fullyrðingum Hauks um starfsemi fyrirtækisins.

Hefur hann meðal annars gagnrýnt sóttvarnaraðgerðir íslenskra stjórnvalda og kallað eftir því að þau líti frekar í átt til Svíþjóðar.

Í grein sinni hafnar Kári því að Íslensk erfðagreining sé í sérstöku átaki til þess að safna lífsýnum Íslendinga og að fyrirtækið geti flutt gögn og sýni sem það hafi safnað úr landi til að þjóna bandarísku móðurfyrirtæki sínu.

Kári sjálfur ábyrgðarmaður gagnanna

„Íslensk erfðagreining á engin gögn um fólk og hefur engan umráðarétt yfir slíkum gögnum og getur því hvorki veitt aðgang að slíkum gögnum né flutt úr landi. Ég, Kári Stefánsson, er ábyrgðarmaður allra gagna um fólk sem eru notuð til rannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu. Ég á ekki gögnin en ég er vörslumaður þeirra og aðgangur minn að þeim er takmarkaður við leyfi Vísindasiðanefndar og blessun Persónuverndar. Ég hef enga heimild til þess að flytja þau úr landi og má svo sannarlega hvorki selja þau né nota þau sem veð eða fjalla um þau á annan hátt en Vísindasiðanefnd veitir mér leyfi til.“

Ekki útilokað að Haukur verði að standa fyrir máli sínu frammi fyrir dómi

Sömuleiðis vísar Kári því á bug að fyrirtækið framkvæmi rannsóknir í tengslum við faraldurinn án samþykkis Vísindasiðanefndar. Skimanir sem það hafi unnið fyrir sóttvarnalækni leiði ekki til söfnunar lífsýna eða sé hluti af vísindarannsókn.

„Einu lífsýnin sem eru geymd hjá ÍE eru þau sem hafa fengist frá fólki sem hefur veitt upplýst samþykki og þau eru öll á ábyrgð Kára Stefánssonar en ekki fyrirtækisins vegna þess að Vísindasiðanefnd veitir ekki fyrirtækjum eða háskólum leyfi til rannsókna heldur fólki. Aðgengi mitt, Kára Stefánssonar, að lífsýnunum er með öllu háð leyfum Vísindasiðanefndar. Það hefur engin vísindarannsókn verið gerð hjá ÍE án leyfis Vísindasiðanefndar og engin slík er í gangi.“

Þá bætti hann við að aðgengi sitt að lífsýnunum væri með öllu háð leyfum Vísindasiðanefndar og að engin vísindarannsókn hafi verið gerð hjá fyrirtækinu án leyfis hennar.

„Hins ber svo að geta að þær ásakanir Hauks að ÍE sé að brjóta lög með því að vinna rannsóknir án tilskyldra leyfa eru alvarlegar og ekki útilokað að hann verði að standa fyrir máli sínu frammi fyrir dómstólum.“