Kári reynir að hughreysta landann: „Þetta verður í fínu lagi“

„Samskipti mín við þríeykið hafa verið mjög góð og ég lít á Ölmu og Þórólf sem góða vini og frábært samstarfsfólk,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í tilraun til að kveða niður sögusagnir þess efnis að samskipti hafi verið stirð á þeim bænum að undanförnu.

Eins og alþjóð veit tilkynnti Kári með hvelli á mánudag að fyrirtækið myndi hætta þátttöku í landamæraskimun stjórnvalda frá og með næsta þriðjudegi.

„Það er hins vegar ekki verkefni ÍE að skima eftir veirum. Við gerðum það meðan faraldurinn gekk yfir landið vegna þess að þess þurfi og enginn annar til þess,“ bætir hann við í færslu á Facebook-síðu sinni.

Nú sé ástandið þó allt annað og ekki lengur réttlætanlegt fyrir fyrirtækið að halda því áfram. Landspítalinn sé enda ágætlega í stakk búinn til þess að ráða við verkefnið.

Kári segir að Íslensk erfðagreining muni gefa spítalanum hugbúnað sem útbúinn hafi verið fyrir verkefnið og kenna starfsfólki á hann.

„Og þess utan ef þau lenda í vanda, eða út í mýri, þá erum við hér, atvinnumenn og konur í því að vera út í alls konar mýrum og kunnum að takast á við það og rjúkum til og hjálpum. Þetta verður í fínu lagi.“