Kári svarar fullum hálsi: Hafa ekki hundsvit á vandanum sem blasir við

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, svarar fimm heimspekingum fullum hálsi sem lýstu yfir áhyggjum sínum af mögulegri þátttöku Íslands í bólusetningartilraun lyfjafyrirtækisins Pfizer á dögunum. Fimmmenningarnir; Vilhjálmur Árnason, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Finnur Delsén, Hlynur Orri Stefánsson og Sigurður Kristinsson skrifuðu grein sem birtist í Fréttablaðinu þann 9. Febrúar síðastliðinn og vakti talsverða athygli.

Kári hefur nú svarað grein þeirra í Fréttablaðinu í dag og segir að ýmislegt gott megi segja um íslenska heimspekinga. „En af og til lenda heimspekingarnir okkar í slíkri sjálfsupphafningu að þegar þeir líta niður á okkur pöpulinn, ofan úr hæðum sínum þá sundlar þá og þeir tapa áttum.“

Kári segir að gott dæmi um þetta megi finna í umræddum greinarstúf eftir fimm íslenska heimspekinga sem birtist í Fréttablaðinu þann 9. febrúar undir fyrirsögninni.

„Hann byggði að mestu á spurningum um rannsókn sem ekki var búið að setja saman og var því ekki til. Hún var einungis óljós hugmynd í kollunum á nokkrum mönnum beggja vegna Atlantshafsins. Spurningar sem bornar voru upp í greinheimsspekinganna byggðu á ágiskun þeirra á því hvernig sú hugmynd yrði gerð að rannsókn sem síðan yrði framkvæmd hér á landi. Þetta er svipað því og þegar einn af okkar ágætu tónlistargagnrýnendum skrifaði í dagblað dóm um tónleika sem aldrei voru haldnir. Síðan bæta félagarnir fimm gráu ofan á svart með því að efast um vísindalegt gildi rannsóknar sem þeir vissu ekkert um, vegna þess að það var ekkert til að vita um. Það er dagljóst á stúfnum að þeir hafa ekki hundsvit á þeim bólusetningarvanda sem blasir við heiminum í dag.“

Kári fer svo yfir „hugsunina sem aldrei varð að rannsókn“ og fer svo yfir athugasemdir fimmmenninganna. Kári segir að bóluefni Pfizer hafi verið þróað á skömmum tíma en vitað sé að það veitir góða vörn til skamms tíma þeim sem eru bólusettir.

„Hversu lengi endist vörnin? Er þörf á því að gefa þriðja skammt eftir einhvern tíma og ef svo er hver er hann? Ver bóluefnið jafn vel fyrir öllum stofnum veirunnar? Hversu stóran hundraðshluta af samfélagi þarf að bólusetja til þess að það verji líka þá sem eru ekki bólusettir? Öllum þessum spurningum er ósvarað en hefði að öllum líkindum verið hægt að svara með stórri rannsókn á Íslandi, ef við hefðum ekki verið búin að kveða veiruna í kútinn með sóttvörnum.“

Kári þvertekur svo fyrir það að um hafi verið að ræða tilraun til að svindla sér fram fyrir í röðinni. Hér hafi hugmyndin verið að leggja að mörkum til lausnar á vanda sem allur heimurinn er að glíma við.

„Svör við spurningunum hér að ofan hefðu gert það mun auðveldara að skipuleggja bólusetningar um allan heim og jafnvel gert þær ódýrari. Án þess að gera stóra rannsókn á þjóð eins og Íslendingum tekur það býsna langan tíma að leita svara við spurningunum sem hefðu að öllum líkindum skipt mestu máli fyrir þær þjóðir sem minnst mega sín.

Hann nefnir svo lokaorð fimmmenninganna sem klykktu út með því að segja að upplýst samfélagsumræða sé mikilvægur aðdragandi svona rannsóknar en hún taki tíma.

„Hvar hafa þessir menn verið undanfarna tíu mánuði? Þjóðin hefur ekki um annað talað og hugsað en þessa pest. Það er ekkert sem hefur haldið meira fyrir henni vöku, ekkert sem hefur þrengt meira að henni, ekkert sem hefur svipt hana mannréttindum að sama marki. Þess vegna er ekkert í hugmyndinni um rannsókn af þeim toga sem hér um ræðir sem kallar á langa samfélagsumræðu, ef hún stæði til boða gæti þjóðin tekið upplýsta afstöðu í einni andrá eða í mesta lagi á dagsparti.“

Kári nefnir fleiri atriði máli sínu til stuðnings en þau má lesa í heild sinni í greininni í Fréttablaðinu í dag.