Kári skrifar opið bréf til Þórólfs: „Eina sem er verra en vondar fréttir eru góðar fréttir sem standast ekki“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafa átt í orðaskiptum síðastliðna daga en Kári hefur gagnrýnt sóttvarnayfirvöld vegna mögulegra tilslakana á aðgerðum gegn COVID-19 faraldrinum hér á landi.

Kári hefur í gegnum tíðina einstaka sinnum talað gegn sóttvarnaráðstöfunum yfirvalda en gagnrýni hans í þetta sinn sneri að því að yfirvöld hafi gefið þau skilaboð fyrir nokkrum vikum að mögulega væri hægt að slaka á takmörkunum og því hafi fólk orðið kærulaust.

Sjá einnig: Þór­ólfur segir Kára vega ó­mak­lega að sér

„Þú átt ekki að segja fólki að þú munir kannski létta á aðgerðum eftir einhvern smá tíma. Mér finnst þetta vera mesti veikleikinn í aðgerðum sóttvarnayfirvalda, sem hafa að öðru leyti staðið sig afskaplega vel. Við getum ekki spáð fyrir um hvað gerist næst og við eigum ekki að reyna það,“ sagði Kári í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær

Þórólfur ræddi gagnrýni Kára í Víglínunni á Stöð 2 fyrr í dag en hann gaf lítið fyrir gagnrýni Kára, hann hafi ekki boðað tilslakanir og sagðist alla tíð hafa haldið því fram að það þyrfti að fara hægt í allt slíkt. „Mér finnst ómaklegt af fóstbróður mínum í Covid baráttunni að orða þetta svona,“ sagði Þórólfur í Víglínunni.

„Það er einfaldlega rangt að ég hafi nokkurn tíman veitst að þér. Ég hef hrósað þér í hástert í hvert sinn sem ég hef fengið tækifæri til, vegna þess að mér finnst þú hafir staðið þig með afbrigðum vel í baráttunni og ég er montinn af því að hafa fengið að vera í þínu liði,“ segir Kári í færslu sem hann birtir á Facebook í dag.

Hann segir að hann hafi hins vegar dregið það í efa að einhver væri óskeikull, þar á meðal Þórólfur, en hann vísaði til þess að hann hafi áður verið ósammála Þórólfi.

Sjá einnig: Kári með skýr skila­boð: „Það væri ansi heimsku­legt á þessu augna­bliki“

Hann sagði Þórólf og Víði Reynisson yfirlögregluþjón hafa sagt fyrir tveimur vikum að til stæði að aflétta einhverjum takmörkunum en hann sagði slíkt vera óskynsamlegt, bæði vegna þess að fólk gæti orðið kærulaust og það gæti leitt til þess að faraldurinn blossi upp á ný.

„Þórólfur, þú og þitt fólk hafið höndlað faraldurinn af mikilli fagmennsku og dugnaði og ég er vissum að það er ekki til betra fólk í heiminum í þetta verk. Ykkur hefur samt orðið svolítið á í messunni þegar kemur að því að hemja væntingar,“ segir Kári.

„Þið hafið á köflum kiknað undan lönguninni til þess að flytja góðar fréttir; gleymt því að það eina sem er verra en vondar fréttir eru góðar fréttir sem standast ekki og leiða menn út í mýri. Þessi faraldur er og verður „vondar fréttir“ og þegar maður er sóttvarnarlæknir er það hlutverk manns að tjá sig í samræmi við það, en ekki í samræmi við það sem maður heldur að fólk vilji heyra.“

„Maðurinn einn er ei nema hálfur með öðrum er hann meira en hann sjálfur“ Óður Einars Ben til meðvirkninnar Opið bréf...

Posted by Kari Stefansson on Sunnudagur, 29. nóvember 2020