Kári um Þórólf: „Svolítill þunglyndistónn í sóttvarnaherforingja okkar“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spáir bjartari tímum á næsta ári í Covid-19 málum.

Hann segir að ný bóluefni verði þróuð til að draga verulega úr smitum í staðinn fyrir að draga úr alvarlegum einkennum. Hann reiknar einnig með því að lyf gegn Covid-19 komi á markaðinn á næsta ári.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur þáttarins í gær og ræddi þar um framtíðina.

Sigmundur Ernir Rúnarsson þáttastjórnandi spurði: „Við erum að ganga á jörðina okkar, leðurblökur eru að missa heimili sín, dýr eru að smita yfir í menn í auknum mæli. Er þetta komið til að vera með þessum hætti sem kórónaveiran hefur kennt okkur?“

„Já, ég held að við þurfum alvarlega að hugsa um það,“ svaraði Þórólfur. „Við erum að ganga á heimkynni villtra dýra og samgangur manna og villtra dýra er að verða meiri og það eru ákveðnar veirur og bakteríur sem finnast bara hjá dýrum sem eru farin að ganga yfir í menn. Við erum að sjá nýja sjúkdóma eins og ebólu. Það myndi ekki koma mér á óvart ef við förum að sjá fleiri svona sýkingar.“

Aðspurður um þessa framtíðarsýn segir Kári að hann telji að þessi veira verði kveðin í kútinn.

„Við lifum í miklu meira návígi hvort við annað og ferðumst miklu meira. Það má vel vera að þegar svona faraldur kemur upp á yfirborðið breiðist hann út miklu hraðar en áður en mér finnst þetta svolítill þunglyndistónn í þessu hjá Þórólfi, þessum ágæta manni og duglega sóttvarnaherforingja okkar. Við ættum ekki að sökkva okkur ofan í djúpar áhyggjur að þessi veira verði hér í mörg ár eða áratugi eða að það komi aðrar veirur af sama toga en við eigum hins vegar að fylgjast grannt með því sem er að gerast út í heimi,“ sagði Kári.

Aðspurður segist hann vilja sjá sérstaka farsóttarstofnun á Íslandi

„Við þurfum að byggja upp farsóttarstofnun sem fylgist með því sem er að gerast út í heimi, greinir gögn og getur kallað saman hóp stofnana, fyrirtækja og einstaklinga til að bregðast við.“

Kári verður gestur á Fréttavakt Hringbrautar í kvöld.