Kári lýsir ís­lenskri spillingu: Besti vinur formannsins fékk staðinn

„Mann setur hljóðan þegar fréttir berast af því að Ís­land fær verstu spillingar­ein­kunn af Norður­löndum. „Hvar er þessi spilling?“ spyr maður. Er hún kannski miklu nær, bara akkúrat hérna heima í Grinda­vík?“

Þetta segir Kári Guð­munds­son, veitinga­maður í Grinda­vík og fé­lags­maður í Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lagi Grinda­víkur, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Í grein sinni heldur Kári því fram að ein­hvers konar spilling hafi ráðið því hver fékk að hefja rekstur í Sjó­manna­stofunni Vör í Grinda­vík. Kári bendir á að um sé að ræða sögu­frægan stað, en þeir sem muna eftir Stuð­manna­myndinni Með allt á hreinu muna kannski eftir því að Stuðmenn borðuðu ham­borgara og franskar í sjoppunni eins og Kári rifjar upp.

Kári segir að lengi vel hafi stofan verið eini staðurinn í Grinda­vík þar sem hægt var að setjast niður og kaupa sér mat. Nú séu hins vegar aðrir tímar og mikið vatn runnið til sjávar síðan.

„Í Grinda­vík hefur á síðustu árum orðið til þó nokkuð af veitinga­stöðum sem bjóða fínt úr­val af góðum mat. Allir geta fundið sér gott að borða í Grinda­vík, hvort sem menn vilja græn­metis­rétti, ham­borgara, steikur, pizzur eða ljúffengan fisk. Við­brögð heima­manna og annarra gesta sem koma hvaða­næva úr heiminum hafa verið mjög já­kvæð. Þær fjöl­skyldur sem standa á bak við þennan fjöl­breytta rekstur leggja mikið á sig með metnað og ást­ríðu að vopni við það að bjóða upp á góðan mat í harðri sam­keppni,“ segir Kári og bætir við að sam­keppni sé af hinu góða svo lengi sem jafnt er gefið.

„Nú eru komnir nýir rekstrar­aðilar á Sjó­manns­stofunni Vör við Hafnar­götu,“ segir Kári og spyr hvort það sé ekki bara gott mál.

„Húsið hefur fengið tölu­verða yfir­halningu enda fram­kvæmdir löngu tíma­bærar að sögn Einars Hannesar Harðar­sonar, formanns Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lags Grinda­víkur, á vef Grinda­víkur, en fé­lagið á húsið og leigir út reksturinn.“

Kári segir að það sem veki at­hygli og jafn­vel furðu er það að besti vinur formannsins hafi fengið að leigja staðinn án þess að aðrir fengju tæki­færi á að leggja inn til­boð.

„Engin leið er betri en opið út­boð til að tryggja hags­muni Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lags Grinda­víkur til að fá sem mest fyrir sína eign. Þess í stað er staðurinn leigður út langt undir markaðs­virði og með 15 til 20 milljóna króna með­gjöf frá Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lagi Grinda­víkur til leigu­taka, í formi yfir­halningar á löngu tíma­bærum fram­kvæmdum að sögn formannsins.“

Kári segir að vert sé að at­huga að fram­kvæmdir felast ekki í endur­bótum á þaki eða veggjum fast­eignarinnar heldur upp­færslu á búnaði og tækjum fyrir veitinga­rekstur á sam­keppnis­markaði.

„Í því felst gríðar­leg skekkja fyrir rekstrar­aðila veitinga­húsa að nýr rekstrar­aðili leigir hús­næði og tækja­búnað fyrir al­gjöra lág­marks fjár­hæð. Á­réttað skal að leigan grípur ekki einungis húsa­kostinn heldur líka allt sem þarf til að reka veitinga­hús; diska, potta, rán­dýr tæki og tól alls konar. Fær Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lagið þessa fjár­festingu til baka? Nei, við blasir að það eru engar líkur á því vegna þess að samið hefur verið til lang­tíma undir markaðs­virði.“

Kári segir að staðurinn sé stór­glæsi­legur og opnaður aftur eftir endur­bæturnar með því að bjóða upp á há­degis­verðar­hlað­borð og fleira. Þetta sé vitan­lega gert í sam­keppni við aðra veitinga­menn í Grinda­vík sem þurfa að standa skil á öllu sínu og fjár­magna sínar fram­kvæmdir sjálfir.

„Er eðli­legt að ný og endur­bætt sam­keppni í veitinga­rekstri sé fjár­mögnuð af Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lagi Grinda­víkur? Vita fé­lags­menn af ráða­hagnum? Vita fé­lags­menn að ráða­brugg sem þetta er í engu sam­ræmi við til­gang fé­lagsins í 2. gr. laga þess? Gera fé­lags­menn sér grein fyrir því að það hefði örugg­lega fengist hærra verð fyrir fjár­festinguna með því að bjóða fleirum en besta vini formannsins einum að kjöt­kötlunum? Mann setur hljóðan þegar fréttir berast af því að Ís­land fær verstu spillingar­ein­kunn af Norður­löndum. „Hvar er þessi spilling?“ spyr maður. Er hún kannski miklu nær, bara akkúrat hérna heima í Grinda­vík