Kári kallaði Heimi og Gulla drullusokka: „Þið verðið ekki fallegri fyrir vikið“

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar stillti sig ekki um að hrella þá Heimi Karlsson og Gulla Helga þegar hann ræddi við þá í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun.

Kári var þar að ræða við þá um blóðprufu sem geti spáð fyrir um langlífi fólks. Fór Kári yfir það á vísindalegan hátt hvernig svokölluð eggjahvítuefni í blóði eru mælikvarði á heilsu fólks og geti þannig metið hversu langt viðkomandi á eftir.

Heimir og Gulli spurðu Kára hvort aukin hreyfing gæti haft áhrif á eggjahvítuefnin. Kári sagði engan vafa á því. Beindi hann svo orðum sínum að Heimi og Gulla.

„Ég held að þið drullusokkar tveir ættuð að fara að hreyfa ykkur reglulega,“ sagði Kári og uppskar mikinn hlátur þeirra félaga.

„Það getur vel verið að það hafi áhrif á heilsu ykkar, en þið verðið ekki fallegri fyrir vikið, svo mikið er víst. Ég hefði ráðlagt ykkur að vera frekar í útvarpi heldur en sjónvarpi.“

Þegar Heimir jafnaði sig á hlátrinum sagði hann: „Þessa vegna erum við hér.“