Kári gefist upp á að hafa vit fyrir úrræðalausum ráðherrum

„Kári hefur einfaldlega farið fram á fagleg vinnubrögð af hálfu stjórnvalda, í erfiðum aðstæðum sem reyna á alla sem að málinu koma,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um samskipti stjórnvalda og Íslenskrar erfðagreiningar.

Í grein sem birtist á Vísi í dag fer Þorgerður hörðum orðum um ríkisstjórnina og sakar hana um að hafa lítinn skilning á stöðu fyrirtækisins og þeim aðstæðum sem uppi eru í samfélaginu vegna COVID-19.

„[...]íhaldsflokkarnir sem hana skipa virðast ekki vita hvernig þeir eigi að haga samskiptum við einkafyrirtæki sem á lítið undir kjördæmapoti og sérhagsmunagæslu.“

Hún segir fulltrúa ríkisstjórnarinnar hafa verið duglega að mæta á blaðamannafundi og í viðtöl við erlenda miðla þar sem orðræðan hafi verið á þann veg að „ betra væri að gera meira og gera það hratt en að gera minna og of seint.“

„En nú þegar ÍE hefur bókstaflega gefist upp á að hafa vit fyrir úrræðalausum ráðherrum heyrist hvorki hósti né stuna frá þeim sem höfðu sig mest frammi þegar sviðsljósið var þeim í hag og nægt rými var fyrir orðin sem nú hafa reynst tóm.“

Að sögn Þorgerðar er ekki sjálfsagt eða eðlilegt að einkafyrirtæki stígi inn í atburðarás sem þessa og leggi til starfskrafta og þekkingu án þess að fá skýr svör um það til hvers sé ætlað, hversu lengi og hvað taki við.

„Ábyrgir stjórnendur fyrirtækja geta ekki flotið stefnulaust áfram út í hið óendanlega, líkt og þessi ríkisstjórn hefur því miður gert í alltof mörgum málum. Allt í nafni þess að viðhalda stöðugleika í stjórnlausum heimi.“