Kallað til lög­reglu vegna ölvaðs strætó­far­þega

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu tókst á við fjöl­breytt verk­efni síðast­liðinn sólar­hringinn en 88 mál voru bókuð á milli klukkan 17:00 og 05:00 í nótt. Meðal annars var óskað eftir að­stoð lög­reglu við að vísa ölvuðum manni úr strætis­vagni rétt eftir klukkan hálf sex í gær­kvöldi.

Yfir­bugaðir af lög­reglu

Þá var til­kynnt um mann með hníf við skemmti­stað í mið­borginni rétt fyrir mið­nætti. Hafði sá reynt að veitast að öðrum manni með hnífnum.

Þegar lög­reglu bar að garði reyndi maðurinn að komast undan en var yfir­bugaður af lög­reglu­mönnum sem beittu varnar­úða. Maðurinn var í kjöl­farið vistaður í fanga­klefa.

Þá barst til­kynning fyrr um kvöldið um mann í annar­legu á­standi en sá var grunaður um þjófnað í mið­bænum. Maðurinn var hand­tekinn og streittist hann á móti í hand­töku að sögn lög­reglu. Maðurinn reyndist vera með hníf í buxna­vasa sínum og var vistaður í fanga­klefa yfir nótt.

Há­vaði í heima­húsum

Lög­reglan í Kópa­vogi og Breið­holti sinnti mest megnis verk­efnum sem tengdust sam­kvæmis­há­vaða í heima­húsum en á annan tug til­kynninga um há­vaða bárust lög­reglu í nótt.