Einar Þór Sigurðsson skrifar

Kalla eftir rót­tækum að­gerðum: Vilja frysta vísi­tölu neyslu­verðs og verja heimilin

12. mars 2020
13:17
Fréttir & pistlar

„Ég held að það geti alveg hæg­lega gerst,“ segir Vil­hjálmur Birgis­son, vara­for­seti ASÍ, í sam­tali við Hring­braut þegar hann er spurður hvort hann eigi von á verð­bólgu­skoti.

Vil­hjálmur og Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, sendu frá sér yfir­lýsingu í há­degi þar sem þeir skoruðu á stjórn­völd að frysta tafar­laust vísi­tölu neyslu­verðs til verð­tryggingar. Þannig yrði komið til móts við heimilin í landinu sem eru með verð­tryggð hús­næðis­lán.

Á­hrifa CO­VID-19 er farið að gæta í efna­hags­lífinu og við­búið er að á­hrifin muni að­eins aukast eftir því sem út­breiðsla veirunnar verður meiri. Í sam­tali við Hring­braut bendir Vil­hjálmur á gengi krónunnar hafi veikst að undan­förnu. Nemur veikingin í dag gagn­vart evru til dæmis 2,14 prósentum og 2,70 prósentum gagn­vart Banda­ríkja­dollar.

Vil­hjálmur segir að for­dæmi séu fyrir því að verð­bólgu­skot hafi komið hér á landi í kjöl­far falls krónunnar. „Við höfum for­dæmi fyrir því úr hruninu þar sem að lánin stökk­breyttust eftir að gengið féll.“

Að­spurður segir Vil­hjálmur að þetta gæti verið tíma­bundin ráð­stöfun þar sem stjórn­völd gætu hlíft heimilum landsins við mögu­lega þungu höggi.

„Þetta eru for­dæma­lausar að­stæður sem eru að teiknast upp og nú verða menn bara að læra af gömlum mis­tökum sem menn gerðu á sínum tíma og láta þau ekki endur­taka sig. Nú verða allir sem einn að standa saman og tryggja allt sem hægt er að tryggja.“

Vil­hjálmur segir einnig ljóst að inn­streymi fjár­magns í landið mun dragast saman í ljósi fækkunar ferða­manna. Donald Trump Banda­ríkja­for­seti til­kynnti í gær­kvöldi að 30 daga bann yrði sett á flug­ferðir frá þeim ríkjum Evrópu sem eru aðilar að Schen­gen-sam­starfinu. Vil­hjálmur segir að þessi stað­reynd geti einnig haft mjög nei­kvæð á­hrif á gengi krónunnar.

„Við svona for­dæma­lausar að­stæður verða menn að grípa til rót­tækra að­gerða. Það er bara þannig.“