Júlíana birtist í „Fávitavarpinu“ á Facebook og er allt annað en sátt

Facebook-síða sem kallast „Fávitavarpið í Geldingahrauni“ hefur vakið talsverða athygli síðastliðinn sólarhring eða svo, en þar keppast notendur við að setja inn myndir af fólki sem kemur sér í mynd af beinni útsendingu RÚV af eldgosinu í Geldingadölum.

Hringbraut sagði í gær frá harðri gagnrýni Ólínu Þorvarðardóttur, þjóðfræðings og fyrrverandi þingkonu, í garð þeirra sem troða sér í mynd og trufla þar með upplifun fólks heima í stofu sem vill fylgjast með gosinu. Í dag var útsendingin rofin um stundarsakir þegar óprúttnir aðilar með áróðursborða stilltu honum upp fyrir framan myndavélina. Hefur þetta farið í taugarnar á mörgum og kannski skiljanlega.

Í fyrrakvöld birtist mynd af konu í umræddum hópi sem stóð fyrir framan myndavélina og talaði í síma. Virtist hún vel meðvituð um að myndavélin væri fyrir framan hana, enda sést hún brosa og horfa í vélina.

Í köld skrifaði umrædd kona, Júlíana að nafni, svo athugasemd við færsluna og lýsti yfir megnri óánægju sinni.

„Ég er konan á þessari mynd. Hef aldrei áður verið kölluð fáviti eða athyglissjúk enda er ég hvorugt. Ef þú þekktir mig vissirðu það,“ segir hún og beinir orðum sínum að þeim sem setti myndina inn.

„Ég reyni alltaf að hegða mér vel og mér datt satt best að segja ekki í hug að ég væri að gera neitt rangt. Mér finnst þetta mjög lágkúruleg síða. Ef þetta truflar ykkur svona mikið væri skynsamlegra fyrir ykkur að snúa ykkur til eigenda vefmyndavélarinnar og biðja þá um að setja upp skilti með kurteislegum tilmælum til fólks um að standa ekki fyrir framan myndavélina. Kveðja, Júlíana.“

Margir hafa svarað færslu Júlíönu og sýna fæstir henni mikla samúð. „Ég vísa í frétt á RÚV í kvöld, þar sem reynt var að segja á kurteisan hátt að svona hegðun fyrir framan myndavélarnar væri ekki málið,“ segir til dæmis í einni athugasemd.