Jón vill að þjóðerni viðkomandi komi fram í fréttum af afbrotum

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður, kallar eftir því að fjölmiðlar tilgreini í fréttum af afbrotum þjóðerni þeirra sem gerast brotlegir.

Jón segir í færslu á heimasíðu sinni að fjölmiðlar hafi fyrir nokkrum árum tekið upp þann „ósið“ að greina ekki frá því hvaðan glæpamenn kæmu eða segja á þeim nauðsynleg deili.

„Sagt var að það væri óþarfi og aðalatriðið væri að bregðast við afbrotinu, en þjóðerni viðkomandi skipti engu máli. Þessar röksemdir eru afsökun á því, að gera ekki grein fyrir hlutum eins og þeir eru. Stjórnvöld og fréttaelítan vilja leyna ákveðnum staðreyndum fyrir fólkinu í landinu,“ segir Jón og nefnir fréttir af hnífaárás um helgina í þessu samhengi.

Fórnarlamb árásarinnar liggur þungt haldið á sjúkrahúsi og segir Jón að í fréttum hafi verið kyrfilega greint frá því að sá sem væri grunaður um ódæðið væri Íslendingur.

„Vonandi veit þetta á breytingu hjá fréttaelítunni, að í framtíðinni verði gerð grein fyrir þjóðerni brotamanns og jafnvel frekari deili. Allt eru það nauðsynlegar upplýsingar sem eiga erindi við almenning í lýðræðisríki,“ segir Jón sem endar pistilinn á þessum orðum:

„Eða verður það þannig, að einungis verði sagt frá því þegar Íslendingur brýtur af sér og við getum þá gengið út frá því, að þegar ekki er gerð grein fyrir þjóðerni brotamanns, að þá sé ekki um Íslending að ræða?“