Jón Viðar segir veikari stöðu kristinnar trúar hér á landi ástæðu þess að ungmennum líður illa

Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnandi og þjóðfélagsrýnir, gerir áhugavert viðtal RÚV við Ingibjörgu Evu Þórisdóttur, doktor í sálfræði, að umtalsefni á Facebook-síðu sinni.

Í viðtalinu kom fram að breyting hafi orðið á andlegri líðan barna og ungmenna hér á landi síðustu tíu ár. Þeim hefur nefnilega fjölgað sem greina frá því að þeim líði illa.

„Árin 2012 og 2013 fórum við að sjá breytingar þar sem að ungmenni eru að greina frekar frá andlegri vanlíðan heldur en áður og þá sérstaklega stelpur. Sú þróun hefur haldið áfram. Í Covid og eftir Covid eykst andleg vanlíðan hjá stelpum og strákum og það hefur ekkert breyst. Þó við séum að horfa upp á að samfélagsgerðin sé að verða svolítið eins (og fyrir Covid) þá hefur andleg vanlíðan ekki stillt sig af þannig að þau séu að greina frá eins og þau gerðu fyrir Covid,“ sagði Ingibjörg í viðtalinu.  

Jón Viðar segir að viðtalið sé í senn athyglisvert og óhugnanlegt.

„Það er í sjálfu sér gott að ábyrgir aðilar skuli reyna að fylgjast með andlegri líðan ungmenna og þær skýringar sem eru hér settar fram eru allrar athygli verðar. Af mörgu ætla ég hér aðeins að nefna eitt: það er sú skylda ekki bara uppalenda heldur allra fullorðinna að vera æskulýðnum góð fyrirmynd,“ segir hann meðal annars og bætir svo við einum punkti í umræðuna.

„En annars langar mig bara að segja að eins þótt sálfræðingurinn komi hér með ýmsar skýringar, þá nefnir hún ekki það sem að mínu viti og (sem betur fer) margra annarra er höfuðmeinið og undirrótin að þessu öllu saman og það er veikari staða kristinnar trúar með íslensku þjóðinni, hnignun kristins uppeldis og kristinnar trúrækni.“

Jón Viðar segir að hann hafi sjálfur verið svo lánsamur að alast upp af kristnu fólki og í samfélagi sem var ekki orðið jafn „gegnsýrt af hreinni vanþekkingu og fordómum í garð kristindómsins“ og það sem við lifum í nú.

„Sú trúfræðsla sem ég fékk í KFUM og skólanum (þar var kristnin ekki orðin bannorð eins og hún er nánast orðin nú) nú eða í fermingarundirbúningi, hún var vissulega ekki fullkomin, það sá ég svo löngu síðar, en það skiptir ekki öllu máli. Þegar ég á fullorðins aldri mótaði afstöðu mína til þessara hluta, þá stóðu mér margir vegir opnir, og svo er um okkur öll.

En sem sagt: það er sjálfsagt að ræða fram og aftur um andlegt heilbrigði okkar unga fólks á félags- og sálfræðilegum nótum - en undirstaðan að heilbrigðu mannlífi er og verður sá kristni trúargrunnur sem vestræn menning er reist á og þeir góðu ávextir sem hún hefur í tímans rás borið. Það mun að endingu koma okkur öllum í koll, ef hann er rofinn.“