Jón Viðar með játningu: Skrifaði handrit sem Baltasar gæti leikstýrt – Óvenjulegur söguþráður

Jón Viðar Jónsson, einn þekktasti leikhúsgagnrýnandi þjóðarinnar, birti játningu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Þó að Jón Viðar virki stundum dálítið alvarlegur er stutt í húmorinn hjá honum eins og færsla hans sýnir og sannar.

„Jæja, gott fólk, nú ætla ég að játa svolítið fyrir ykkur. Eins og hann Baltasar upplýsti fyrr í sumar þá er það einn æðsti draumur minn að skrifa kvikmyndahandrit. Nú vill svo til að ég hef lokið við eitt slíkt en þætti vænt um að fá viðbrögð (að sjálfsögðu jákvæð) við því áður en ég læt það frá mér. Handritið ber nafnið HEFND ROLLUNNAR - og ég tek skýrt fram að líkindin með því og nýjasta meistarastykki íslenska kvikmyndasumarsins, sem er stórmyndin Dýrið, eru síðður en svo tilviljun.“

Jón Viðar fer svo yfir söguþráðinn sem verður nokkuð óvenjulegur ef marka má lýsingar hans.

„Það er mjög margt framsækið, djarft og frumlegt við myndina. Í fyrsta lagi er aðalpersóna myndarinnar ær nokkur og er myndin öll séð frá hennar sjónarhóli. Svo ber við einn góðan veðurdag að ærin ber afkvæmi sem er sambland af lambi (hausinn) og manneskju (skrokkurinn að öðru leyti). Þegar hjónin á bænum taka "barnið" frá henni, fara með það inn í bæ og láta eins og þau eigi það, ærist ærin eðlilega. Hún stangar húsið allt að utan og jarmar ógurlega dögum saman. En bóndahjónin láta sem ekkert sé og sýna engan lit á að skila barninu,“ segir hann og heldur áfram:

„Nú eru góð ráð dýr (bendi ykkur á að "dýr" getur hér verið bæði lýsingarorð og nafnorð, enda býr myndin yfir margvíslegu táknmáli sem ekki verður farið nánar út í að sinni en mun skýrast í endanlegri vinnslu) En það segir sig sjálft að sú sauðkind sem ber slíku lambmenni er engin meðalrolla, heldur ofurrolla eins og nú kemur á daginn. Til að gera langa sögu stutta,, þá stekkur rollan á fjöll og safnar saman öllum eftirlegukindum öræfanna uns hún er komin með óvígan kindaher sem hún leiðir til fyrri heimkynna. Þar ræðst rolluherinn sem er hinn ægilegasti ásýndum á bóndabæinn, éta vondu bændahjónin sem stálu lambmenninu og leggja allt fjárhúsbúið undir sig. Þessi sena verður öll sett upp sem vísun í hina dásamlegu hrollvekju Hitchkocks Fuglana og mun vafalaust rata inn í kvikmyndasöguna sem merkilegt sambland nýsköpunar og vísana í hefðina, allt í póstmódernískum anda. Að lokum ríkir Rollan ein yfir landinu - ég veit ég þarf ekki að túlka fyrir okkur hina dýpri merkingu þess endis.“

Jón Viðar hefur að sjálfsögðu fulla trú á handritinu og kallar eftir aðeins jákvæðum athugasemdum – engum neikvæðum. Eins og margir vita hafa hann og Baltasar Kormákur eldað grátt silfur saman að undanförnu, sérstaklega eftir að Jón Viðar gagnrýndi Kötlu nokkuð harkalega. Hélt Baltasar því fram í kjölfarið að Jón Viðar hefði óskað eftir því að verða handritshöfundur þáttanna eftir að þeir hittust í sundi.

„Ég hef vissulega orðið þess var að mikill áhugi er fyrir verkefninu í íslenska bíóbransanum og hafa svo margir verið í beinu eða óbeinu sambandi við mig að mér er verulegur vandi á höndum. Ég geri þó ráð fyrir að Benni Erlings sem hefur mikla reynslu í að leikstýra hrossum, sé líklegasti kandídatinn í leikstjórnina. Balti kæmi svo sem til greina enda veit ég að hann langar mjög til að vinna með mér og hefur verið að tala um það í heitum pottum sundlauganna síðustu mánuði. Hann yrði þó að lofa því að skrifa enga uppvakninga inní handritið enda nóg komið af slíku. En aðalatriðið er að ég vil bara vinna með toppfólki því hér má engu klúðra. Ég hef því ákveðið að bjóða Sjón að vera ráðgjafi við frágang handrits eftir nýjustu tilþrif hans í stórmyndinni Dýrið. Ég er ekki alveg búinn að ráða það við mig hver fær að leika aðalhlutverkið, en verð að játa að mér finnst Björk okkar koma vel til greina eftir sín stórkostlegu listatilþrif í sjónvarpinu í fyrrakvöld. Hún yrði Ofurrolla allra tíma.“

Jón Viðar segist að endingu ekki vera kominn lengra að sinni en lofar að leyfa fylgjendum sínum að fylgjast með gangi mála þegar fjármögnun og undirbúningsvinnu fer að ljúka. „Góðar stundir,“ segir hann að lokum.