Jón Viðar hættur að horfa á Verbúð: Ofbauð lokaatriðið í gær - „Ótrúverðugt, ósmekklegt og yfirgengilegt“

Jón Viðar Jónsson, einn þekktasti gagnrýnandi þjóðarinnar, er ekki yfir mjög hrifinn af þáttunum Verbúð sem sýndir hafa verið undanfarin sunnudagskvöld á RÚV.

Óhætt er að segja að þættirnir hafi fengið einróma lof frá fólki og eru margir þeirrar skoðunar að þarna sé komið eitt besta leikna sjónvarpsefni sem komið hefur fram hér á landi. En Jón Viðar er annarrar skoðunar eins og hann lýsti í gagnrýni sinni eftir fyrstu fjóra þættina í síðustu viku. Eftir að fimmti þátturinn var sýndur í gær skrifaði Jón Viðar hugleiðingar sínar um þættina og hann er ekkert sérstaklega ánægður.

„Hafi einhvern tímann verið heil brú í þessari Verbúð þá er hún farin lönd og leið eftir þennan fimmta þátt sem sýndur var í kvöld. Hvað þarna er að? Jú, það vantar bara alla sálfræðilega undirbyggingu í aðalpersónurnar og alla samfellu og heildarsýn í plottið svo að atriði detta dauð niður slag í slag.“

Jón Viðar segir í færslu sinni að til að halda áhorfendum við efnið kunni höfundar þá engin ráð önnur en að búa til óvæntar uppákomur sem gerast einhvern veginn upp úr þurru og hafa jafnvel engar afleiðingar. Nefnir Jón Viðar slys af öllu mögulegu tagi og svo sjónvarpsslysið sem sýnt var í þættinum í gær.

„Engin aðalpersóna vekur áhuga; það er helst að sumir leikarar í minni hlutverkum geri það gott; ég nefndi nokkra hér í færslu um daginn og get bætt við: Benni Erlings var kostulegur sem Denni Hermanns, Hinrik Ólafsson vakti líka athygli, leikari sem mætti sjást oftar. Ég heyri sumsstaðar að fólk vill gefa þeim Vesturporturum prik fyrir þarfa ádeilu á siðlausa pólitík og lýsingu á tíðaranda, ég skil svo sem það sjónarmið, en allt slíkt er til lítils ef ekki er byggt á öðru en klisjum og reyfaratöktum; ef það slær hvergi neitt lifandi hjarta í dramanu.“

Jón Viðar segir að steininn hafi tekið úr í lokaatriði þáttarins í gærkvöldi – atriði sem átti að sýna uppákomu í sjónvarpsþættinum Á tali hjá Hemma Gunn.

„Ég hef hreinlega ekki geð í mér til að fara nánar út í það sem þar var boðið upp á, svo ótrúverðugt, ósmekklegt og yfirgengilegt sem það var. Þið ráðið auðvitað hvað þið gerið, ágætu FB-vinir, en ég er hættur, enda nóg framboð af miklu betri seríum bæði á RÚV-vefnum og Netflix, kjósi maður að eyða tíma sínum í hám!“