Jón verður pabbi 58 ára: „Ég sá þetta ekki fyrir mér sem ungur maður“

Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson á von á barni ásamt konu sinni, Hildi Völu Einarsdóttur. Þetta er sjötta barn Jóns sem varð nýlega 58 ára.

Í viðtali í Mannlega þættinum á Rás 2 ræddi Jón meðal annars um föðurhlutverkið, tónlistarbransann og áhrif COVID-19-faraldursins á störf hans.

Jón er augljóslega mikill fjölskyldumaður en hann sagði að ýmsir hefðu viðrað þær áhyggjur við hann að hann væri orðinn of gamall til að eignast börn og hefði ekki tíma til að sinna barninu og öðrum verkefnum. Hann gefur lítið fyrir slíkar vangaveltur og bendir til dæmis á að hann spili ekki golf svo hann hafi nægan tíma.

„Eftir því sem maður verður eldri verður maður rólegri og rólegri og maður veit hvað tíminn líður hratt svo maður þarf að njóta augnablikanna. Allt þetta safnast saman í að maður verður syngjandi sæll og glaður,“ sagði hann í þættinum sem fjallað er um á vef RÚV. „Þetta er best í heimi,“ segir hann um föðurhlutverkið.

Jón á einnig tvö barnabörn og er það yngsta aðeins nokkurra vikna gamalt. „Það er allt vaðandi í börnum í kringum mig. Ég sá þetta ekki fyrir mér sem ungur maður,“ sagði Jón meðal annars.

Hér má hlusta á viðtalið í heild sinni.