Jón Steinar sér eftir ummælum sínum um Kára Stefánsson

Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, viðurkennir að þær samlíkingar sem hann greip til í pistli sínum í gær, þar sem hann gagnrýndi Kára Stefánsson, hafi verið óviðeigandi og óþarfar.

Jón Steinar skrifaði þá um COVID-19-faraldurinn og aðgerðir yfirvalda til að stemma stigu við honum. Líkti hann ástandinu við nasismann í Þýskalandi. Þá líkti hann Kára Stefánssyni við Donald Trump.

Sjá einnig: Jón Steinar hjólar í Kára: Moldríkur orðhákur sem kominn er á elliár

„Sagan segir t.d. að almenningur í Þýskalandi á tímum Hitlers hafi verið svo hræddur að fólkið hafi nánast lagt blessun sína yfir illvirki hans við útrýmingu á milljónum gyðinga á árunum síðari heimsstyrjaldar,“ sagði Jón Steinar sem tók þó fram að íslenska dæmið væri vissulega ekki jafn alvarlegt og þetta þýska.

Í pistli á heimasíðu sinni í morgun viðurkennir hann að þessar samlíkingar hafi verið óþarfar.

„Þar á ég í fyrsta lagi við val á dæmi úr mannkynssögunni þar sem ótti manna var virkjaður í pólitískum tilgangi. Ég nefndi dæmi um að Þjóðverjum hafi staðið svo mikill beygur af Hitler að þeir hafi nánast lagt blessun sína yfir voðaverk hans gagnvart gyðingum. Út úr þessum ummælum mínum var reyndar snúið, því ég var auðvitað ekki að líkja ákvörðunum um sóttvarnir á Íslandi við gyðingamorðin í Þýskalandi á stríðsárunum. Það hefði samt frekar verið viðeigandi hjá mér nefna mildari dæmi úr mannkynssögunni þar sem ótti var notaður til að fá borgara til að bakka upp gerðir valdhafa sinna. Þar er af nógu að taka,“ segir hann.

Þá segir hann að ekki hafi verið sanngjarnt af honum að líkja Kára Stefánssyni við Trump fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, jafnvel þó að Kári hafi áður talað með niðrandi hætti um Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi á dögunum, og líkt honum við Trump.

„Það er nefnilega óþarfi að láta annað fólk draga sig niður á umræðuplan, eins og ég gerðist þarna sekur um. Bið ég Kára Stefánsson því velvirðingar á þessu fráviki mínu á góðum umræðuháttum.“

Jón Steinar tekur loks fram að hann sé hreint ekki andvígur því að samfélagslegt vald sé notað af hófsemd til að varna útbreiðslu á smitandi veiru – að því tilskildu að ávallt sé farið að lögum.

„Bið ég lesendur að meðtaka þessa yfirbót mína með mildu hjartalagi sínu.“