Jón sem sat á Bláu könnunni gagnrýndur: „Skúrkalegt að horfa af vanþóknun á blæðandi einstakling“

„Er ég eitthvað að misskilja samfélagið okkar? Erum við í alvöru að fagna þessu afskiptaleysi?,“ spyr aktívistinn Hildur Lillendahl Viggósdóttir í færslu á Twitter.

Vísar hún þar í viðtal Vísis við Jón Stefáns­son sem náðist á mynd sitjandi fyrir utan Bláu könnuna á Akureyri í gær eftir að mikil hópslags­mál brutust út.

Myndin hefur farið eins og sina í eldur um sam­fé­lags­miðla og má sjá Jón halda í bjór­glasið sitt og sitja sem fastast á meðan tveir blóðugir menn ganga fram­hjá honum.

„Ég ætlaði ekki að fara að láta þetta trufla mig,“ sagði Jón. „Ég var búinn að vera í golfi yfir daginn og var bara mjög slakur. Ég sat bara sem fastast.“ Í viðtalinu segir að Jón hafi bæði verið í slökkviliðinu og í björgunarsveit.

Hildur er ekki sátt við að þessu sé fagnað líkt og víða hefur verið gert á samfélagsmiðlum. „Mér finnst í fyrsta lagi að maður með þennan bakgrunn hefði átt að bregðast við en hitt öllu verra hvernig fréttaflutningurinn og fögnuðurinn yfir þessu normalíseraða ofbeldi er.“

Fjölmiðlakonan María Lilja Þrastardóttir tekur undir: „Það hefur hvergi komið fram að þeir hafi verið snarruglaðir, þó vissulega sé þetta ekkert eðlileg hegðun. Þarna er maður, mikið slasaður og við erum bara voða slök yfir því að fyrrum opinber hjálparstarfsmaður aðstoði hann ekki því hann var með nýjan bjór.“

Jóhann nokkur segir óeðlilegt að gera eldri borgara að skúrk í málinu. María Lilja svarar: „Mér finnst frekar skúrkalegt að horfa af vanþóknun á blæðandi einstakling afþvi hann truflar bjórdrykkjuna mína.“

Jóhann segir: „Ekki búumst við því að maður…líklega eitthvað yfir sjötugt, stöðvi hópslagsmál ungra manna? Varðandi fyrstu hjálp þá geri èg nú ráð fyrir að lögregla og sjúkralið hafi verið snögg á staðinn og efast líka um að maðurinn hafi verið með sjúkratösku á sèr.“

Því svarar María: „Mennirnir á myndinni eru ekki að slást. Öðrum þeirra blæðir mjög mikið og þarf hjálp.“